Hanna Kristbjörg Guðmundsdóttir fæddist 10. ágúst 1928 í Gíslabæ á Hellnum. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 5. september 2015

Foreldrar hennar voru Júníana Helgadóttir, f. 13. júní 1887, d. 9. september 1966, og Guðmundur Pétursson, f. 31. mars 1892, d. 30. janúar 1944. Systir hennar var Helga Ingibjörg, f. 5. júlí 1919, d. 26. september 1975, hennar maki var Björn Jónsson, f. 20. mars 1910, d. 6. júlí 1983.

Börn þeirra eru Pála Jóna, sem er látin, Guðmundur, Jón Trausti, Kristín, sem er látin, Sigurður Björgvin, Hörður Geir og Björg. Hanna var fimm ára þegar foreldrar hennar flytja búferlum til Akureyrar ásamt dætrum sínum. Fjölskyldan settist að á Gránufélagsgötu þar sem þau bjuggu í nokkur ár þar til Hanna og móðir hennar fluttu í Norðurgötu 2, nokkrum árum eftir lát föður hennar. Hanna fluttist síðan í Skarðshlíð 4. Síðustu árin bjó hún í Víðilundi og Dvalarheimilinu Hlíð.

Hún byrjaði snemma að vinna, meðal annars með móður sinni við síldarvinnslu, vegavinnu og kaupamennsku að Steinsstöðum í Öxnadal. En meiri hlutann af starfsævi sinni vann hún við saumaskap ýmiskonar, hjá Fataverksmiðjunni Heklu og Mokkaskinnastofu Sambandsins.

Útför Hönnu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 11 september 2015, kl. 10.30.

Hjartkær móðursystir konu minnar, hún Hanna Kristbjörg Guðmundsdóttir, eða Hanna frænka eins og hún var kölluð af öllum í fjölskyldunni, er látin. Hún var einhleyp allt sitt líf en hún átti stóra systurfjölskyldu sem hún helgaði allt sitt líf.

Hún hafði saumaskap að atvinnu og þótti með eindæmum vandvirk og þær voru ófáar flíkurnar sem hún saumaði og lagfærði fyrir fjölskylduna gegnum árin.

Þær voru tvær systurnar, Hanna og Helga, tengdamóðir mín. Helgu kynntist ég ekki, því hún var látin, sem og Björn tengdafaðir minn, þegar ég kynntist Björgu, konunni minni.

Það má segja að ég hafi þekkt Hönnu jafn lengi og hana, vegna þess að þegar ég fyrir margt löngu fór norður í land á mannamót, þá hitti ég Björgu mína í fyrsta sinn, sem var þá með Hönnu frænku sinni.

Eftir fráfall systur sinnar, Helgu, þá má segja að Hanna hafi að hluta til gengið systurbörnum sínum í móður stað. Þó flest þeirra væru komin á fullorðinsár.

Björg er yngst systkinanna og var aðeins 16 ára þegar móðir hennar féll frá. Björg og Hanna voru alla tíð nánar. Áttu heima í sömu blokk, í Skarðshlíðinni, í nokkur ár. Ég og Björg hófum búskap í Reykjavík, en fórum á hverju ári norður á Akureyri og stundum oftar en einu sinni.

Sú regla var ætíð höfð í heiðri að heimsækja Hönnu fyrst og síðan var hún kvödd síðast þegar farið var úr bænum heim á leið. Hönnu var mjög annt um systurbörn sín og var henni fátt óviðkomandi. Umhyggja hennar og væntumþykja var endurgoldin af þeim og þeirra afkomendum. Heilsu hennar líkamlega hrakaði mikið síðustu árin en hugsunin var skýr fram á síðustu stund. Síðustu árin bjó hún á Dvalarheimilinu Hlíð og var þar vel hugsað um hana. Ég minnist með mikilli hlýju allra tæplega 30 áranna sem ég fékk að þekkja Hönnu frænku. Gestrisni hennar og eldamennska var rómuð.

Oft eftir köku- eða matarboð var stofusófinn hennar oft notaður af okkur „strákunum“ til að leggjast á meltuna eftir kræsingarnar sem boðið var upp á.

Ég kveð þig, Hanna mín, með þá vissu í huga að við eigum eftir að hittast aftur yfir kaffibolla og smákökum. Góð kona er farin á annað tilverustig og mun minning hennar lifa í hjörtum okkar sem eftir eru. Öllum systurbörnum hennar, mökum og fjölskyldum votta ég mína dýpstu samúð.

Magnús Ingólfsson.