Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson spyr á vef sínum: „Hvernig ætla stjórnarflokkarnir að útskýra fyrir kjósendum svik sín í ESB-málinu?

Styrmir Gunnarsson spyr á vef sínum: „Hvernig ætla stjórnarflokkarnir að útskýra fyrir kjósendum svik sín í ESB-málinu?“ Hann bendir á þögn um stöðu aðildarumsóknar Íslands að ESB í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra og segir nokkuð ljóst að núverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkar ætli að láta hér við sitja „og gera ekki frekari tilraunir til að draga aðildarumsóknina til baka með afgerandi hætti.

Það þýðir að komist aðildarsinnuð ríkisstjórn til valda á ný á Íslandi mun slík ríkisstjórn leita eftir því við Evrópusambandið að þráðurinn verði tekinn upp þar sem frá var horfið.“

Styrmir bendir á að veturinn 2014 hafi ríkisstjórnin ætlað að ljúka málinu með þingsályktun en hafi gefist upp við það.

Haustið 2014 hafi verið gefið skýrt til kynna að ný þingsályktunartillaga yrði lögð fram og snemma á þessu ári hafi verið talað á sama veg. Í mars hafi verið ákveðið að draga umsóknina til baka með einhliða bréfi til ESB. Bréfið hafi verið ófullnægjandi og að auki hafi ESB svikið samkomulag um svör við bréfinu.

Svo segir Styrmir: „Vísbendingar eru um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætli að láta hér við sitja. Framundan er landsfundur flokksins. Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvort svæfingin mun einnig ná til landsfundar og hvort landsfundarfulltrúar láta gott heita.“