Vigdís Kristjánsdóttir fæddist 11. september 1904 á Korpúlfsstöðum í Mosfellssveit. Foreldrar hennar voru Kristján Magnússon, f. 2.8. 1874, d. 5.8. 1923, bóndi þar, sonur Magnúsar Þorleifssonar, bónda á Hofsstöðum, Garðahr., Gull., og k.h.

Vigdís Kristjánsdóttir fæddist 11. september 1904 á Korpúlfsstöðum í Mosfellssveit. Foreldrar hennar voru Kristján Magnússon, f. 2.8. 1874, d. 5.8. 1923, bóndi þar, sonur Magnúsar Þorleifssonar, bónda á Hofsstöðum, Garðahr., Gull., og k.h. Sveinsína Rannveig Þórðardóttir, f. 1.2. 1865, d. 10.12. 1905, dóttir Þórðar Sveinbjörnssonar kennara og bónda á Snæfellsnesi. Móðir Þórðar, Rannveig, var systir Bjarna Thorarensen, skálds og amtmanns.

Vigdís missti móður sína tveggja ára gömul og föður sinn skömmu eftir fermingu. Hún var tekin í fóstur af móðursystur sinni, Sigríði Þórðardóttur í Reykjavík.

Vigdís stundaði myndlistarnám hjá Stefáni Eiríkssyni, Ríkharði Jónssyni og Guðmundi Thorsteinsson og tónlistarnám í Reykjavík og síðar í Þýskalandi. Hún lauk teiknikennaraprófi frá Handíða- og myndlistaskólanum 1945. Síðan nam hún við Listaháskólann í Kaupmannahöfn í fimm ár og fór þaðan námsferðir til Hollands, Frakklands og Ítalíu og síðar stundaði hún í tvö ár myndvefnaðarnám í Ósló.

Tónlistarhæfileikar Vigdísar voru miklir, og lék hún mjög vel á píanó, en eftir að hún sneri sér að fullu að myndlistarnámi, mátti segja, að sú listgrein ætti hug hennar allan, einkum listvefnaður.

Starfaði Vigdís síðan sem myndlistarmaður og vefnaðarlistakona í Reykjavík.. Hún var einnig teiknikennari í Kvennaskólanum í Reykjavík og myndvefnaðarkennari í Handíðaskólanum.

Vigdís var einn af fjórum frumherjum veflistar hér á landi ásamt Júlíönu Sveinsdóttur, Ásgerði Búadóttur og Barböru Árnason.

Hinn 9.1. 1937 giftist Vigdís Árna Einarssyni, kaupmanni í Reykjavík og ekkjumanni, f. 9.9. 1870, d. 12.12. 1957. Foreldrar hans voru Einar Eiríksson, bóndi á Möðruvöllum í Kjós, og Sigurbjörg Guðmundsdóttir, húsfreyja. Vigdís átti engin börn en Árni átti börn af fyrra hjónabandi, m.a. Egil Árnason stórkaupmann.

Vigdís lést 10.2. 1981.