Haust Stefán Jökull Jakobsson segir að nýting í skálum Ferðafélags Íslands minnki hratt eftir verslunarmannahelgi og þeim hefur nú flestum verið lokað.
Haust Stefán Jökull Jakobsson segir að nýting í skálum Ferðafélags Íslands minnki hratt eftir verslunarmannahelgi og þeim hefur nú flestum verið lokað. — Morgunblaðið/Ómar
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Ferðafélag Íslands (FÍ) er búið að taka vatn af, loka og læsa skálunum á Kili, við Einifell, í Hvítárnesi, Þverbrekknamúla og í Þjófadölum. Það sama á við um Valgeirsstaði, skála FÍ í Norðurfirði á Ströndum.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Ferðafélag Íslands (FÍ) er búið að taka vatn af, loka og læsa skálunum á Kili, við Einifell, í Hvítárnesi, Þverbrekknamúla og í Þjófadölum. Það sama á við um Valgeirsstaði, skála FÍ í Norðurfirði á Ströndum. „Um næstu helgi lokum við skálanum í Nýjadal og í beinu framhaldi af því erum við að gera okkur klár að loka í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Hvanngili og í Botnum í Emstrum,“ segir Stefán Jökull Jakobsson hjá Ferðafélagi Íslands.

Tímasetningin er engin tilviljun en flestar áætlunarferðir hætta að ganga inn í Landmannalaugar og Þórsmörk þann 15. september. „Þá er eðlilegt að fara og ganga frá. Haustveðrin eru líka aldeilis farin að láta á sér kræla. Það er lítið um bókanir þessa síðustu daga en það eru enn margir túristar hér á landi sem eru ekki skráðir í kerfið. Þeir mæta bara á BSÍ og kaupa sér rútuferð eitthvert og enginn skiptir sér af því. Þeir labba síðan af stað, ekki með næga þekkingu á því hvert þeir eru að fara og hvaða aðstæður eru að myndast,“ segir hann.

Hundsuðu viðvaranir

Í gær þurftu björgunarsveitir að sækja karlmann og konu í Landmannalaugar sem hlustuðu ekki á viðvaranir skálavarða, samkvæmt upplýsingum Stefáns. Mátti litlu muna því karlmaðurinn var með einkenni ofkælingar.

„Við höfum verið að lenda í því bæði í fyrra og árið þar á undan að útlendingar eru að reyna að komast í skálana okkar eftir að við erum búnir að loka og læsa. Það kom fyrir í Baldursskála að gluggar voru skildir eftir opnir og það olli talsverðu tjóni. Það voru vatns- og snjóskemmdir og kostaði okkur tvær ferðir á sérútbúnum jeppum að gera við til að koma í veg fyrir að húsið eyðilegðist endanlega.

Neyðaropnanir eru allsstaðar til staðar í öllum skálum. Fólk kemst inn í anddyri og þar eru neyðartalstöðvar. Við erum að merkja það betur því fólk hefur verið að brjóta rúður til að komast inn – svo eru dyrnar opnar,“ segir Stefán.

Hann segir að hámarksnýting sé á skálunum í rúmar fimm vikur en bókanir fari frekar hratt niður eftir verslunarmannahelgi. „Það er stundum erfitt að halda húsunum við, sem dæmi þá var vegurinn um Fjallabak ekki opnaður fyrr en 16. júlí og við rétt náðum að opna þann skála þegar við þurftum að fara að loka honum.“