Víkingur Bergdís Þrastardóttir, doktor í miðaldabókmenntum, fræðir Dani um menningu sína.
Víkingur Bergdís Þrastardóttir, doktor í miðaldabókmenntum, fræðir Dani um menningu sína. — Ljósmynd/Gísli Dúa
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Mér finnst algjörlega út í hött hvað Danir gera lítið úr menningararfi sínum.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Mér finnst algjörlega út í hött hvað Danir gera lítið úr menningararfi sínum. Um alla Danmörku eru einstakir staðir sem tengjast víkingaöldinni og þeir gera mjög lítið með þá og hinn almenni Dani veit lítið um víkingaforsögu sína. Danir þurfa menningarlegt akkeri til að halla sér upp að en það er mjög alþjóðlegur hugsunarháttur ríkjandi hér. Þeir þurfa að vera betur meðvitaðir um hvernig landið varð til, þjóðin og menningin. Það vantaði einhvern til að tengja þessa punkta saman,“ segir Bergdís Þrastardóttir spurð hvernig hugmyndin að ferðum á víkingaslóðir í Danmörku kviknaði.

Hún fer með Dani á víkingaslóðir og einnig erlenda ferðamenn. Í því samhengi bendir hún á að 82% Englendinga tengi Dani við víkinga. Enn fremur gúggli 70% af Þjóðverjum, sem eru stærsti ferðamannahópurinn í Danmörku, víkinga um leið og Danmörku. Þarna liggur því vannýtt auðlind, að mati hennar, sem Danir hafa ekki nógu mikinn áhuga á.

Bergdís er vel kunnug víkingaöldinni, en hún lauk nýverið doktorsgráðu í miðaldabókmenntum frá Háskólanum í Árósum, þar sem hún hefur verið búsett sl. átta ár. Eftir námið stofnaði hún fyrirtækið Valkyrju, sem sér um að skipuleggja ferðir, viðburði, ráðgjöf, fyrirlestra og fleira um víkingatímann. Bergdís er með háleit framtíðarplön en fyrst um sinn mun hún bjóða upp á ferðir í kringum Árósa. „Ég grínast stundum með það að í framtíðinni ætli ég að eignast víkingaskemmtiferðaskip sem myndi sigla leiðina sem víkingarnir fóru, t.d. til Norður-Ameríku og Grænlands,“ segir hún og hlær.

Vill miðla með því að leyfa fólki að upplifa

Ein af ástæðunum fyrir áhugaleysi Dana á víkingatímunum er takmarkað aðgengi og fornlegar þýðingar á fornsögunum almennt, að sögn Bergdísar, en nýjar þýðingar eru nú ýmist komnar út eða eru í burðarliðnum. Þá bendir hún á að Danir hafi ekki kynnst fjölbreyttri miðlun á efni frá víkingatímanum.

„Ég hugsaði fyrst að ef ég fengi vinnu í háskólanum myndi ég ná til fólksins með kennslu og greinaskrifum en það er ekki þannig. Ég vil fræða fólk um víkinga og söguna með því að leyfa því að prófa, sjá, reyna og finna, í samstarfi við söfnin og staðina. Danir eru ekki meðvitaðir um af hverju fortíð þeirra og víkingatímabilið skiptir máli. Á sama tíma er gríðarleg samkeppni í afþreyingarbransanum og um tíma fólks og áhuga. Það þarf því að vekja áhuga þess á hátt sem það skilur og þannig að það vilji hlusta. Ég er ekki minni fræðimaður fyrir vikið að vilja miðla á annan hátt en í gegnum greinar sem eru skrifaðar til annarra fræðimanna. Ég fann að það var þetta sem vantaði, fólk sem býr bæði yfir faglegri þekkingu, praktískri reynslu og miðlunarhæfileikum.“

Næg verkefni bíða Bergdísar, en í þessum mánuði fer hún með stóran hóp nemenda sem eru á svokallaðri víkingalínu í háskólanum í Árósum á söguslóðir Haraldar blátannar, í virki sem hann reisti. Nemendur fræðast um sögu Haraldar blátannar ásamt því að fá innsýn í matargerð, handverk og hvað þurfti til að lifa af á víkingatímanum.