Norðlenskur matur Rík áhersla er lögð á mat og drykk frá Norðurlandi.
Norðlenskur matur Rík áhersla er lögð á mat og drykk frá Norðurlandi. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
„Við reynum að hafa eitthvað fyrir sem flesta,“ segir Stella Gestsdóttir. Hún á Bláu könnuna og Kaffi Laut, ásamt manni sínum, Eyþóri Jósepssyni, og hjónunum Grétu Björnsdóttur og Ingólfi Gíslasyni.

„Við reynum að hafa eitthvað fyrir sem flesta,“ segir Stella Gestsdóttir. Hún á Bláu könnuna og Kaffi Laut, ásamt manni sínum, Eyþóri Jósepssyni, og hjónunum Grétu Björnsdóttur og Ingólfi Gíslasyni.

„Ég og Gréta rekum staðina dags daglega en mennirnir okkar hjálpa þegar mikið er að gera,“ segir hún.

Stella og Gréta tóku við rekstri Bláu könnunar árið 2007 og Kaffi Lautar sjö árum síðar. Þær stöllur stóðu vel af sér hrunið, þó svo að öll lán hafi „rokið upp úr öllu valdi“ eins og Stella orðar það. Þær lögðu þó ekki árar í bát, héldu áfram að vinna af krafti og gátu svo opnað Kaffi Laut árið 2014. „Ég held að hrunið hafi bara þjappað okkur saman frekar en hitt,“ segir hún.

Ferðatímabilið að lengjast

Að sögn Stellu hafa viðskipti við ferðamenn aukist ár frá ári. „Núna koma ferðamenn allt árið um kring en áður komu þeir bara yfir sumartímann. Þegar ég byrjaði í veitingarekstri stóð ferðamannatímabilið aðeins frá 17. júní og fram yfir Akureyrarvöku í lok ágúst. Tímabilið er alltaf að lengjast og núna er nóg að gera allt árið um kring,“ greinir hún frá.

„Sérstaða okkar er fólgin í því að allt brauð og allar kökur eru heimabakaðar, auk þess sem við leggjum mikið upp úr því að bjóða upp á norðlenskt kaffi og mat. Við viljum einfaldlega halda störfum í bænum,“ útskýrir Stella.

Á hverjum degi kemur bakari á Bláu könnuna og bakar brauð og kökur fyrir bæði Könnuna og Lautina, eins og staðirnir eru gjarnan kallaðir.

Vita hvað er í matnum

Margt af þeim kræsingum sem boðið er upp á er glútenlaust. Í því samhengi nefnir Stella brúnkökur, franska súkkulaðiköku, marengskökur og gróft brauð sem dæmi. „Við vitum hvað er í matnum okkar því hann er búinn til hér frá grunni. Þess vegna getum við ábyrgst, þegar einhver með fæðuofnæmi eða óþol kemur hingað, að maturinn sé öruggur fyrir hann að borða,“ segir Stella, en hún leggur mikið upp úr því að hafa eitthvað fyrir sem flesta. Fyrir utan kökur og brauð er hægt að kaupa heitan rétt og súpu á Bláu könnunni, svo og súpu og salat á Kaffi Laut.

Bláa kannan, sem er löngu orðin eitt af helstu kennileitum Akureyrar, er opin allt árið. Kaffi Laut er opin á sumrin en leigð út á veturna.

Lautin hlaut hönnunarverðlaun

Húsið sem Kaffi Laut er í er hannað af Loga Má Einarssyni, sem hefur hlotið virt hönnunarverðlaun fyrir húsið. Á Könnunni er sýning með málverkum Sólveigar Jónsdóttur en verk Laufeyjar Pálsdóttur hanga uppi á Lautinni.

brynja@mbl.is