Leikslok Íslenska landsliðið eftir leikinn gegn Tyrkjum í gærkvöld með hina mögnuðu íslensku stuðningsmenn fyrir aftan sig.
Leikslok Íslenska landsliðið eftir leikinn gegn Tyrkjum í gærkvöld með hina mögnuðu íslensku stuðningsmenn fyrir aftan sig. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Berlín Kristján Jónsson kris@mbl.

Í Berlín

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Að ferðalokum finn ég þig, sem mér fagnar höndum tveim,“ sungu landsliðsmennirnir í körfubolta með liðlega þúsund íslenskum stuðningsmönnum á fjölum hinnar glæsilegu Mercedes Benz hallar í Berlín að lokinni riðlakeppni EM í gærkvöldi. Þetta óvænta og sérkennilega kórasamstarf átti sér stað töluvert eftir að framlengdum leik gegn Tyrkjum lauk, sem því miður tapaðist 111:102.

Þegar Óðinn Valdimarsson söng þetta erlenda lag, sem upphaflega var íslenskað: Er völlur grær, á sjötta áratugnum er ósennilegt að hann hafi séð fyrir sér að starfsmenn í íþróttahöll í Þýskalandi myndu setja lagið á fóninn fyrir íslenska gesti á íþróttamóti. Það var nú engu að síður raunin, eins ótrúlega og það kann að hljóma. Áður hafði lagið: Leiðin okkar allra með Hjálmum, fengið að hljóma í höllinni en íslensku landsliðsmennirnir höfðu hlaupið inn á völlinn í upphafi leikja á EM undir því lagi.

Lögðu undir sig höllina

Þessi merkilega uppákoma í gærkvöldi lýsir því ágætlega hvernig bæði íslenska landsliðið og íslensku stuðningsmennirnir höfðu eiginlega lagt undir sig dauðariðilinn á EM. Starfsmenn mótsins þurftu ekki að leyfa slíka uppákomu frekar en þeir vildu, enda í stakk búnir að hefja frágang eftir umfangsmikið mótshald klukkan rúmlega 23 að staðartíma. En þeir gerðu það nú samt og virtust skemmta sér nokkuð vel yfir þessu öllu saman. Ekki er auðvelt að leiða þig, lesandi góður, inn í þessa stemningu sem þarna myndaðist en þú getur brotið heilann um það hversu algengt það er að þúsund Íslendingar opni fyrir tilfinningarnar og sýni öðrum virðingu og þakklæti líkt og íslensku stuðningsmennirnir gerðu. Líklega gerist það býsna sjaldan en þá helst á íþróttaviðburðum.

Íslenska landsliðið var grátlega nálægt sigri í gær eftir hetjulega baráttu, rétt eins og á móti Ítalíu. Ítalía og Tyrkland unnu bæði þrjá leiki í riðlinum og því voru þetta ekki auðveldir andstæðingar. Þegar upp var staðið í mótinu vann Ísland ekki leik og hafnaði í neðsta sæti. Samt sem áður var stemningin á þann veg að Ísland hafi unnið riðilinn. Þetta var einhvern veginn ólíkt öðru sem ég hef kynnst í blaðamennskunni.

Ísland er nær en talið var

Frumraun Íslands á stórmóti í körfubolta er lokið. Íslenska landsliðið er mun nær bestu þjóðum í Evrópu en maður hélt áður en mótið hófst. Það liggur nokkuð ljóst fyrir. Jafnir leikir gegn Þýskalandi, Ítalíu og Tyrklandi og jafnir leikir í fyrri hálfleik gegn Serbíu og Spáni sem hafa verið á meðal bestu liða heims síðustu árin. Í þessum liðum eru NBA-leikmenn hverjir um aðra þvera. Og ekki bara varaskeifur heldur leikmenn með á bilinu 10 - 20 stig að meðaltali í NBA. Þar fyrir utan var þetta samansafn af mönnum sem spila í Meistaradeild Evrópu.

Jón Arnór Stefánsson er eini íslenski körfuboltamaðurinn í sögunni sem hefur spilað í Meistaradeildinni. Reynsluheimur okkar manna og leikmanna hinna þjóðanna er því gerólíkur. Jón sýndi í þessum leikjum í hvaða gæðaflokki hann er. Einn allra besti bakvörðurinn í riðlinum enda gat nánast enginn haldið honum fyrir framan sig í stöðunni maður á móti manni. En andstæðingarnir lögðu mikla áherslu á að halda honum í skefjum og tókst á köflum.

Hlynur Bæringsson er leiðtogi liðsins og hann barðist eins og ljón. Kom það ekki á óvart. Haukur Pálsson og Hörður Axel Vilhjálmsson eru orðnir afar góðir leikmenn og eiga mörg góð ár eftir. Logi Gunnarsson var eins og unglamb og Martin Hermannsson fullur sjálfstrausts, aðeins tvítugur. Pavel Ermolinskij þarf að skila öðru hlutverki en hann er vanur hæðar sinnar vegna og er mikilvægur í vörninni. Þá er ótalinn Jakob Örn Sigurðarson sem skoraði 22 stig í gærkvöldi.