Knattspyrnulið landsins eru eflaust farin að horfa til næsta tímabils bæði hvað varðar leikmannamálin og hverjir eiga að vera við stjórnvölinn hjá þeim á næstu leikíð.
Knattspyrnulið landsins eru eflaust farin að horfa til næsta tímabils bæði hvað varðar leikmannamálin og hverjir eiga að vera við stjórnvölinn hjá þeim á næstu leikíð.

Undirritaður hefur fengið spurnir af því að Tékkinn Petr Mrazek hafi mikinn áhuga á að starfa sem þjálfari hér á landi. Mrazek, sem er 54 ára gamall, þekkir aðeins til fótboltans hér en hann lék sem miðvörður með liði FH 1993-1995 við góðan orðstír. Tékkinn hávaxni var einn besti leikmaður í deildinni og er örugglega í hópi betri útlendinga sem leikið hafa hér á landi.

Mrazek hefur sinnt þjálfun í heimalandi sínu mörg undanfarin ár þar sem hann hefur bæði þjálfað yngri leikmenn og karlalið. Hann er með góða þjálfaramenntun og hefur til að mynda lokið við UEFA-Prográðuna. Mrazek ætti því að vera góður kostur fyrir þau lið sem eru að leita að þjálfara fyrir næsta tímabil.

Væntanlega verða einhverjar hræringar í þjálfaramálunum í Pepsi-deild karla eftir tímabilið. Nokkuð ljóst er þó að Heimir Guðjónsson (FH), Arnar Grétarsson (Breiðabliki), Bjarni Guðjónsson (KR), Ólafur Jóhannesson (Val), Ágúst Gylfason (Fjölni), Rúnar Páll Sigmundsson (Stjörnunni), Milos Milojevic (Víkingi) og Gunnlaugur Jónsson (ÍA) halda áfram með sín lið en óvissa ríkir um hvað gerist hjá Fylki, ÍBV, Leikni og Keflavík, sem er fallið.

Þrettánda tímabilið í röð hafnar FH í öðru af tveimur efstu sætunum í efstu deild karla, sem verður að teljast frábær árangur. Titillinn er innan seilingar hjá FH-ingum og verður þá sá sjöundi frá því þeir unnu hann fyrst árið 2004.