Brotinn Luke Shaw á leið í grasið eftir svakalega tæklingu Hectors Moreno í gærkvöld.
Brotinn Luke Shaw á leið í grasið eftir svakalega tæklingu Hectors Moreno í gærkvöld. — AFP
Luke Shaw, vinstri bakvörður Manchester United, varð fyrir hræðilegum meiðslum í viðureign United gegn PSV Eindhoven í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld.

Luke Shaw, vinstri bakvörður Manchester United, varð fyrir hræðilegum meiðslum í viðureign United gegn PSV Eindhoven í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld.

Hector Moreno, leikmaður PSV, tæklaði Shaw harkalega með þeim afleiðingum að hann tvífótbrotnaði og staðfest var seint í gærkvöld að leikmaðurinn mundi gangast undir aðgerð í Manchester. Ljóst er að Shaw verður frá keppni í marga mánuði og er þetta blóðtaka fyrir United því Shaw hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu og var kominn í gríðarlega gott form eftir frekar erfitt tímabil í fyrra með liðinu. Stöðva þurfti leikinn í átta mínútur en leikmönnum beggja liða var mjög brugðið þegar þeim varð ljóst hversu alvarleg meiðslin voru. Shaw var borinn af velli og þurfti hann að fá súrefni en hann var mjög þjáður. Shaw gat þó síðar um kvöldið sent þakklætis-kveðju á twitter : „Ég þakka ykkur öllum fyrir kveðjurnar. Orð fá því ekki lýst hversu svekktur ég er. Nú tekur strax við endurhæfing og ég kem sterkari til baka,“ skrifaði Shaw, sem er 20 ára gamall enskur landsliðsmaður sem kom til Manchester United frá Southampton fyrir síðustu leiktíð.

gummih@mbl.is