[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vangaveltur Ívar Benediktsson iben@mbl.is Íslands-, bikar- og deildarmeistarar Gróttu eru liðið sem öll önnur lið Olís-deildar kvenna vilja vinna í vetur. Það er alveg ljóst.

Vangaveltur

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Íslands-, bikar- og deildarmeistarar Gróttu eru liðið sem öll önnur lið Olís-deildar kvenna vilja vinna í vetur. Það er alveg ljóst. Grótta er það lið sem allir vilja máta sig við eftir sigurgöngu Seltirninga á síðustu leiktíð. Þar að auki er Gróttuliðið síst lakara en á síðasta keppnistímabili. Litlar breytingar urðu á leikmannahópnum í sumar og ef eitthvað er er hann sterkari. Að vísu fór talsverð reynsla með Karólínu Bæhrenz Lárudóttur þegar hún fór til Svíþjóðar. Í hennar stað klófestu forráðamenn Gróttu hina efnilegu Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur sem leikið hefur í Noregi tvö síðustu ár. Þórey Anna er mörgum sömu kostum búin og Karólína; fljót í hraðaupphlaupum og nýtir færi sín vel þótt reynsluna skorti e.t.v. í samanburði við Karólínu sem hefur verið í stórum hlutverkum í sigursælum liðum Vals og Gróttu síðustu árin.

Unnur Ómarsdóttir flutti heim eftir eins árs veru í Noregi og styrkir mjög vinstra hornið hjá Gróttu.

Lið Gróttu er reynslunni ríkara og á örugglega ekki láta sinn hlut eftir átakalaust enda öllum ljóst sem fylgjast með handknattleik kvenna að Grótta er síst veikari en á síðasta keppnistímabili. Hin unga Lovísa Thompson sló í gegn á síðasta vetri, aðeins 15 ára, og mun ásamt Laufeyju Ástu Guðmundsdóttur og Evu Björk Davíðsdóttur lyfta sóknarleik liðsins upp á hærri stall. Eða ætlar Grótta áfram að treysta á feikisterka vörn undir stjórn þeirra Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur og Evu Margrétar Kristinsdóttur með annan af tveimur bestu markvörðum deildarinnar, Írisi Björk Símonardóttur, í markinu?

Sterkara Framlið

Fram-liðið mætir ferskt til leiks eftir að hafa gengið í gegnum meiðsli sterkra leikmanna á síðustu leiktíð. Safamýrarliðið krækti í Hildi Þorgeirdóttur sem flutti heim eftir fjögurra ára veru í Þýskalandi. Hún styrkir liðið talsvert sem og Guðrún Ósk Maríasdóttir landsliðsmarkvörður, sem kom frá FH. Guðrún Ósk þekkir vel til í herbúðum Fram eftir að hafa leikið þar um skeið fyrir fáeinum árum.

Stjarnan mætir til leiks með nánast sama lið og í fyrra. Þórhildur Gunnarsdóttir verður að vísu frá keppni fram yfir áramót. Nýr þjálfari tók við í sumar, Halldór Harri Kristjánsson. Hann náði athyglisverðum árangri með ungt lið Hauka. Svartfellingurinn Sandra Rakocevic styrkir liðið til muna. Sterkur varnarleikur og markvarsla Florentinu Stanciu verða áfram aðal Stjörnuliðsins.

Haukar hafa styrkt sveit sína frá síðasta keppnistímabili. Munar þar ekki síst um endurkomu Ramune Pekarskyte eftir nokkurra ára utanlandsveru. Hauka vantaði herslumun upp á að komast í úrslit bikarkeppninnar á síðustu leiktíð og álíka mikið til að ná lengra í úrslitakepppninni. Fleiri leikmenn hafa bæst í hópinn sem gera ekkert annað en styrkja og auka reynsluna í þeim hópi sem fyrir var. Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður er lánsmaður frá Gróttu. Elín Jóna sýndi þegar hún fékk tækifæri með Gróttu á síðustu leiktíð að hún er mikið efni. Hjá Haukum fær hún kærkomið tækifæri til þess að bæta sig sem markvörður og vaxa að reynslu og stíga út úr skugganum af hinum sterka markverði Gróttu, Írisi Björk Símonardóttur.

Stíga Haukar skrefið fram á við?

Haukaliðið er e.t.v. það lið deildarinnar sem verður hvað athyglisverðast að fylgjast með í vetur. Nær það að blanda sér af alvöru í baráttu fjögurra efstu liðanna?

Valsliðið gekk í gegnum breytingar á síðasta keppnistímabili eftir að margir leikmenn, sem borið höfðu uppi sigursælt liðs félagsins árin á undan, hættu keppni eða fóru til annarra félaga. Alfreð Örn Finnsson tók við þjálfun í febrúar. Hann hefur haldið uppbyggingunni áfram með eldri og reyndari leikmönnum eins og Kristínu Guðmundsdóttur, Sigurlaugu Rúnarsdóttur og Írisi Ástu Pétursdóttur í bland við yngri og efnilegri leikmenn. Endurkoma Berglindar Írisar Hansdóttur í markið styrkti liðið mikið á síðasta ári og ekki er styrkurinn af reyndum markverði minni í ár þegar hún hefur gengið í gegnum undirbúningstímabilið með liðinu.

Keppnismanneskjan í Eyjum

ÍBV-liðið undir stjórn Hrafnhildar Óskar Skúladóttur verður forvitnilegt. Það er veikara á pappírunum en í fyrra þar sem nokkrir leikmenn yfirgáfu Eyjar í sumar og lítið bættist við. ÍBV sýndi hinsvegar í fyrstu umferð deildarinnar sl. laugardag, með sigri á Fram, að enginn skyldi afskrifa það úr toppbaráttunni. Keppnismanneskjan mikla Hrafnhildur er nú komin í þjálfarastólinn og nýtur þess hlutverks vafalaust af sömu ástríðu og þegar hún var leikmaður og driffjöður hins sterka Valsliðs og íslenska landsliðsins fyrir fáeinum árum.

Fylkir og Selfoss verða væntanlega í baráttu um að ná einu af átta efstu sætunum sem gefa keppnisrétt í átta liða Olís-deild á næsta keppnistímabili. Bæði lið hafa styrkst ár frá ári síðustu keppnistímabil og hafa alla burði til þess að halda þeirri þróun áfram þótt vissulega hafi fyrsti leikur deildarinnar verið Fylkisliðinu ákveðin vonbrigði.

FH og KA/Þór munu einnig gera tilraun til þess að komast í átta liða hópinn en reikna má með að við ramman reip verði að draga hjá ÍR, HK og nýliðum Fjölnis og Aftureldingar.