[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VANGAVELTUR Ívar Benediktsson iben@mbl.is Haukar urðu í vor Íslandsmeistarar í handknattleik karla í tíunda sinn, þar af í níunda skipti frá árinu 2000. Þeir mættu ákveðnir til leiks í úrslitakeppninni. Segja má að þeir hafi náð toppnum á réttum tíma.

VANGAVELTUR

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Haukar urðu í vor Íslandsmeistarar í handknattleik karla í tíunda sinn, þar af í níunda skipti frá árinu 2000. Þeir mættu ákveðnir til leiks í úrslitakeppninni. Segja má að þeir hafi náð toppnum á réttum tíma.

Þetta segir að þótt lið nái sér ekki fullkomlega á strik í deildinni geti allt annað orðið upp á teningnum þegar kemur að úrslitakeppninni sem hefst í apríl á næsta ári.

Haukar bættu ekki við sig leikmönnum í sumar en máttu sjá á bak Árna Steini Steinþórssyni og Vilhjálmi Geir Haukssyni. Þá var markvörðurinn Einar Ólafur Vilmundarson lánaður til Stjörnunnar. Gunnar Magnússon tók við þjálfun Hauka af Patreki Jóhannessyni. Enginn efast um hæfni Gunnars sem þjálfara en víst er að Haukar tefldu djarft með að treysta á þann hóp sem stendur eftir við brotthvarf þremenninganna. Mikið mun reyna á Gunnar að spila vel úr þeim hópi sem hann hefur í höndunum. Gunnar hefur sýnt það áður að hann getur töfrað fram það besta í hverjum einstaklingi.

Valur var með jafnbesta liðið í deildarkeppninni á síðasta ári. Botninn datt hins vegar alveg úr liðinu þegar kom að úrslitakeppninni þar sem það var ekki sannfærandi gegn Fram í 8-liða úrslitum. Þegar kom að leikjunum við Hauka féll Valsmönnum allur ketill í eld, ekki ósvipað og í undanúrslitaleiknum við FH í bikarkeppninni. Óskar Bjarni Óskarsson, hinn þrautreyndi þjálfari Vals, hefur eflaust farið ofan í kjölinn á brotlendingu liðsins í þessum leikjum og er reynslunni ríkari á þessari leiktíð, ekki síður en leikmenn liðsins. Skarð er fyrir skildi við brotthvarf markvarðarins Stephens Nielsens, Finns Inga Stefánssonar og Kára Kristjáns Kristjánssonar. Breiddin er hins vegar fyrir hendi og margir yngri leikmenn hjá félaginu sem vert er að fylgjast með eins og Ómar Ingi Magnússon og Ýmir Freyr Gíslason.

Miklvægir menn fóru frá ÍBV

ÍBV þykir sigurstranglegt á Íslandsmótinu. Ekki síst eftir að liðið krækti í þrjá öfluga leikmenn í sumar, Kára Kristján, Nemanja Malovic og fyrrgreindan Nielsen markvörð frá Val. Væntanlega verður markvarslan jafnbetri hjá ÍBV í vetur en verið hefur með komu Danans. Hins vegar má ekki gleyma því að Agnar Smári Jónsson, sem fór til Danmerkur, var ákveðið akkeri í liðinu. Guðni Ingvarsson er einnig sterkur línumaður. Hann gekk til liðs við Gróttu. Þótt nýju leikmennirnir séu öflugir má ekki gleyma að þeir leikmenn sem fóru voru mikilvægir fyrir liðsheildina.

Arnar Pétursson tók við þjálfun af Gunnari Magnússyni. Þeir voru saman með meistaraliðið 2014 og þar áður hafði Arnar unnið með Erlingi Richardssyni. Það mun mikið mæða á Arnari sem stendur einn í stafni skútu þeirra Eyjamanna í vetur.

Afturelding kom á óvart sem nýliði í fyrra með léttleikandi og skemmtilegu liði sem var að mestu skipað ungum leikmönnum uppöldum hjá félaginu. Í vetur vanmetur enginn Aftureldingu sem hefur þar fyrir utan orðið fyrir áföllum. Örn Ingi Bjarkason flutti til Svíþjóðar, Jóhann Gunnar Einarsson er úr leik fram yfir áramót og Elvar Ásgeirsson frá vegna meiðsla alla leiktíðina.

Jóhann Gunnar og Örn Ingi voru algjörir lykilmenn í sóknarleik Aftureldingar á síðustu leiktíð. Það verður fróðlegt eftir velgengni síðustu leiktíðar að sjá hvernig Mosfellingum gengur.

Ekki skyldi vanmeta ÍR

Enginn skyldi vanmeta ÍR-inga. Þeir seiglast áfram og eru með afar klókt lið og ráðagóða þjálfara sem tekst að ná miklu út úr leikmannahópnum sem mátti sjá á bak besta leikmanni deildarinnar á síðustu leiktíð, Björgvini Hólmgeirssyni, til útlanda í sumar. Þeim sem þessi orð ritar varð það á oftar en einu sinni í fyrra að afskrifa ÍR-inga og skjátlaðist hrapallega. Reynslunni ríkari verður það ekki gert að þessu sinni.

Hætt er við að FH, Fram og Akureyri eigi erfiðan vetur framundan. FH-liðið hefur veikst frá síðasta keppnistímabili en snjall þjálfari, Halldór Jóhann Sigfússon, mun reyna að ná sem mestu út úr hópnum.

Fram var í basli alla síðustu leiktíð. Meiðsli settu lengi vel strik í reikninginn. Liðið getur leikið góða vörn en því miður virðist sóknarleikurinn vefjast fyrir Fram-liðinu og gæti orðið leikmönnum áframhaldandi fjötur um fót í vetur.

Byrjunin lofar ekki góðu hjá Sverre Jakobssyni og lærisveinum hans í Akureyri handboltafélaginu. Hætt er við að fleira skorti en meiri stemningu á heimaleikjum liðsins og flutningur þeirra úr Höllinni í KA-heimilið dugi einn og sér skammt til þess að forða liðinu frá baráttu við falldrauginn í vetur.

Grótta hefur alla burði til þess að halda sér uppi. Liðið vann 1. deildina með yfirburðum í vor. Það hefur styrkst í sumar og það væri hreint slys af hálfu leikmanna og þjálfara ef Grótta verður í fallbaráttu.

Raunsæi til trafala

Víkingur á við ramman reip að draga eftir að hafa loks unnið sér sæti í efstu deild á nýjan leik eftir langa mæðu. Víkingar vita að veturinn verður þeim erfiður. Þeir segjast vera með ódýrt lið og ekki sé tjaldað til einnar nætur. Þar af leiðandi geri menn sér grein fyrir að leiktíðin geti orðið basl. Stundum getur hins vegar verið til trafala að vera of raunsær þegar byggja þarf upp sjálfstraust innan hóps.