— Ljósmynd/Landspítali
Kvenfélagið Hringurinn hefur fært fósturgreiningardeild Landspítala nýtt sónartæki til ómskoðunar fóstra og barna í móðurkviði og Thorvaldsensfélagið nýjan ómhaus við tækið.

Kvenfélagið Hringurinn hefur fært fósturgreiningardeild Landspítala nýtt sónartæki til ómskoðunar fóstra og barna í móðurkviði og Thorvaldsensfélagið nýjan ómhaus við tækið.

„Sónartæknin á meðgöngu er fyrir löngu orðin hluti af greiningu og jafnvel meðferð á meðgöngu og er samofin mæðravernd, í vissum tilvikum út alla meðgönguna. Tækninni fer sífellt fram og er nú hægt að greina ákveðin frávik frá eðlilegu ferli snemma á meðgöngu sem gerir kleift að bregðast við sérhæfðum vandamálum miklu fyrr en áður. Með nýjum tækjum eykst skerpa og skýrleiki myndanna sem síðan eykur líkur á nákvæmari greiningu,“ segir í frétt frá Landspítalanum. Myndin var tekin þegar nýja ómtækinu var fagnað. Fremstar standa Margrét I. Hallgrímsson, deildarstjóri fósturgreiningardeildar, Sonja Egilsdóttir, formaður Hringsins, Anna Birna Jensdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins, og Hildur Harðardóttir, yfirlæknir á kvennadeild.