[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Kristján Jónsson kris@mbl.is Skotinn Steven Lennon hefur verið drjúgur fyrir meistaraefnin í FH í Pepsí-deildinni að undanförnu. Lennon skoraði einu mörk FH í tveimur 1:0-sigurleikjum fyrir landsleikjahléð, gegn Leikni og Víkingi.

Viðtal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Skotinn Steven Lennon hefur verið drjúgur fyrir meistaraefnin í FH í Pepsí-deildinni að undanförnu. Lennon skoraði einu mörk FH í tveimur 1:0-sigurleikjum fyrir landsleikjahléð, gegn Leikni og Víkingi. Að landsleikjunum loknum hélt Lennon uppteknum hætti í síðustu umferð. Skoraði tvö þegar FH vann ÍBV 3:1.

FH er nú með átta stiga forskot á Breiðablik þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir og í Hafnafirði eru menn því skiljanlega orðnir bjartsýnir. „Já, við reynum að ganga frá þessu í næstu umferð. Því fyrr, því betra. Vonandi getum við heimsótt Breiðablik og náð í þrjú stig en það verður erfitt,“ sagði Lennon þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær. Hann hafði þá lokið við að spila golfhring en uppruni þeirrar ágætu íþróttar er einmitt rakinn til Skotlands.

Lennon sagðist reyna að spila golf eins og hann gæti en hann kemur frá Kilmarnock í útjaðri Glasgow. Sem 11 ára gutti sat hann í stúkunni á heimavelli FC Kilmarnock þegar liðið sló KR út úr Evrópukeppni félagsliða árið 1999 eftir framlengdan leik. Kristján Finnbogason, núverandi samherji Lennons í FH, varði þá mark KR.

Talandi um KR þá virðist sem tap FH fyrir KR á heimavelli í 12. umferð hafi verið vendipunktur tímabilsins. FH hefur síðan þá unnið alla sjö deildarleiki sína og hvorki KR-ingum né Blikum tókst að halda í við Hafnfirðinga. „Einmitt. Eftir tapið gegn KR ræddum við málin innan okkar raða og vorum sammála um að við þyrftum að bæta okkur til þess að verða meistarar. Síðan þá hefur okkur gengið mjög vel og það væri gaman að ljúka mótinu með tíu sigurleikjum í röð,“ sagði Lennon.

Atli Guðna er sá besti

Steven Lennon hefur skorað níu mörk fyrir FH í sumar. „Smávægileg meiðsli voru að stríða mér og ég missti úr nokkra leiki. Ég hef bara byrjað inná í tólf leikjum og það er allt í lagi að vera með níu mörk miðað við leikjafjölda. Vonandi get ég bætt við mörkum en Patrick Pedersen þarf að hætta að skora svo ég komist fram úr honum,“ benti Lennon á og hló við en Daninn hefur skorað 12 mörk fyrir Val og er markahæstur í deildinni.

Lennon skoraði ekki bara tvö gegn ÍBV heldur lagði upp mark fyrir Atla Guðnason með snyrtilegri stungusendingu. Spurður hvernig hann kunni við að spila með reynsluboltunum Atla Guðna og Atla Viðari Björnssyni segist Lennon iðulega vinna vel með Atla Guðna. „Að mínu mati er Atli Guðna ennþá besti leikmaður deildarinnar. Reyndar höfum við bara verið þrívegis saman frammi en hann hefur stundum verið á vinstri kantinum. Ég held að okkur takist yfirleitt að skapa marktækifæri hvor fyrir annan þegar við spilum saman. Hann er því fullkominn samherji fyrir mig enda lagði ég upp fyrir hann í síðasta leik og hann fyrir mig gegn Leikni. Hann átti fimm stoðsendingar í fyrstu sjö mörkum mínum í sumar. Atli Viðar er kóngurinn í markaskorun. Hann getur skorað tíu mínútum eftir að honum er skipt inn á og einmitt þegar liðið þarf mest á því að halda. Hann er fullkominn markaskorari í vítateignum og getur skorað mörk fram á fimmtugsaldurinn. Ég fullyrði það.“

Var hjá Glasgow Rangers

Lennon er 27 ára gamall og framundan ættu að vera hans bestu ár í boltanum samkvæmt fræðunum. Er hann ánægður með hvernig ferillinn hefur þróast? „Þegar ég var ungur var ég hjá Glasgow Rangers og liðið var þá nánast áskrifandi að sæti í Meistaradeild Evrópu. Eins og margir ungir fótboltamenn var ég því með stórar hugmyndir um fótboltaferilinn. Í hreinskilni sagt nýt ég þess virkilega að vera á Íslandi. Ég vildi óska þess að veðrið væri betra til þess að tímabilið gæti verið lengra. Íslenska deildin verður æ sterkari og er töluvert betri en þegar ég kom hingað fyrst (sumarið 2011). Í millitíðinni fór ég til Noregs en var þar hjá liði sem var í fallbaráttu. Mér finnst betra að vera hjá liði eins og FH sem á möguleika á að vinna titla. Ég kann vel við mig hérna.“

Takist FH-ingum að landa Íslandsmeistaratitlinum eins og allt bendir til yrði það fyrsti stóri titill Lennons á Íslandi. Til að gæta sanngirni má þó geta þess að hann á þátt í bikarsigri Fram sumarið 2013. Hann spilaði með liðinu fram í 8-liða úrslitin en var farinn til Sandnes Ulf í Noregi þegar kom að undanúrslitum. Lennon á eftir ár af samningi sínum við FH.

„Ég vonast eftir því að hjálpa FH að komast lengra í Evrópukeppni á næsta tímabili en að því loknu met ég stöðuna,“ sagði Skotinn Steven Lennon ennfremur við Morgunblaðið.

Nítjánda umferðin

Aðsókn á leiki 19. umferðar Pepsi-deildar karla var sú næstlakasta á þessu tímabili. Áhorfendur voru 5.525, eða 921 að meðaltali á leik, og hafa aðeins verið færri í 17. umferðinni, dagana 24. og 25. ágúst, en þá mættu 810 manns á leik að meðaltali.

• Þetta er aðeins í þriðja sinn í ár sem meðalaðsókn umferðar fer undir þúsund manns en það hefur hins vegar gerst þrisvar í síðustu fimm umferðunum, í 15., 17. og 19. umferð.

• Meðalaðsókn tímabilsins er hins vegar 1.181 áhorfandi á leik. Eftir 19 umferðir í fyrra var meðalaðsóknin 916 manns á leik og því er mikill munur á milli ára.

• FH er sem fyrr með langbestu aðsóknina á tímabilinu, 1.937 manns að meðaltali á leik. KR er með 1.642, Breiðablik 1.453, Víkingur 1.190, Fylkir 1.163, Valur 1.112, Stjarnan 1.093, Fjölnir 1.082, Keflavík 983, ÍA 963, Leiknir R. 873 og ÍBV 669 manns á leik að meðaltali.

• Nítján mörk voru skoruð í umferðinni, eða 3,2 að meðaltali í leik. Heildarmarkaskorið í ár er hins vegar talsvert undir meðaltali undanfarinna ára, 2,75 mörk í leik. Allt stefnir í að í fyrsta sinn síðan liðum í deildinni var fjölgað úr 10 í 12 nái meðalskor tímabilsins ekki þremur mörkum í leik.

• Guðjón Árni Antoníusson úr Keflavík og Ian Jeffs úr ÍBV náðu stærstu áföngum umferðarinnar en þeir spiluðu báðir sinn 200. leik í efstu deild á sunnudaginn.