Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum á meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum á meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir. Björk Vilhelmsdóttir, fráfarandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu þessa efnis sem var samþykkt með atkvæðum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og VG.

Í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins eftir fundinn segir að þeir taki eindregna afstöðu gegn mannréttindabrotum hvar sem þau séu framin í heiminum. „Ekki er þó hægt að taka undir þá tillögu sem fyrir liggur enda ekki sannfærandi rök um að inngrip af þessu tagi skili miklum árangri. Innkaupabann mun engin áhrif hafa í Palestínu. Allra síst mun innkaupabann á vörur frá Ísrael í Reykjavíkurborg hafa áhrif á stöðu íbúa Palestínu til hins betra. Reynslan sýnir að slíkar aðgerðir loka á samskipti og útiloka farsælar lausnir,“ segir í bókuninni.

Fjandsamleg aðgerð

Í ræðu sinni um málið sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, m.a. að ef borgarfulltrúar kysu slíka sniðgöngu vegna mannréttindabrota, yrðu þeir að vera sjálfum sér samkvæmir og sniðganga á sama hátt aðrar þjóðir þar sem mannréttindabrot eru framin. „Viðskiptabann er fjandsamleg aðgerð,“ sagði Kjartan.