Flóttakona Nazanin Askari átti farsælt líf í Íran þar til hún fór að skipta sér af stjórnmálum árið 2009.
Flóttakona Nazanin Askari átti farsælt líf í Íran þar til hún fór að skipta sér af stjórnmálum árið 2009.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Mig hefur lengi langað til að gera leiksýningu með raunverulegri manneskju.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Mig hefur lengi langað til að gera leiksýningu með raunverulegri manneskju. Áhrifamáttur þess er allt annars konar en venjulegt leikhús, því þetta enginn skáldskapur, sem mér finnst mjög spennandi,“ segir Marta Nordal leikstjóri og meðhöfundur sýningarinnar Nazanin sem forsýnd var á leiklistarhátíðinni Lókal í seinasta mánuði við góðar viðtökur og tekin verður til formlegra sýninga í Tjarnarbíói nk. föstudag.

Í sýningunni, sem leikin er á ensku og tekur um 50 mínútur í flutningi, segir Nazanin Askari sögu sína. „Nazanin er pólitískur flóttamaður. Hún er ung írönsk kona sem flúði frá Íran eftir Grænu byltinguna sem varð í kjölfar forsetakosninganna árið 2009, en hún átti yfir höfði sér fangelsisvist vegna mótmæla. Hún var á flótta í um tvö ár áður en hún kom til Íslands, en hér hefur hún búið í um þrjú ár og bíður eftir ríkisborgararétti,“ segir Marta og bendir á að Nazanin hafi verið í háskólanámi og átt farsælt líf í Íran þar til hún fór að skipta sér af stjórnmálum og brjóta þær reglur sem gilda um konur.

Nota vídeó til að raunveruleikatengja aðstæður

Aðspurð hvernig hún hafi komist í samband við Nazanin segir Marta að Rauði krossinn hafi þar haft milligöngu. „Upphaflega hugmyndin mín var að vinna sýningu um innflytjendur sem síðan þróaðist yfir í að fjalla um flóttakonu. Rauði krossinn benti mér á Nazanin þar sem hún væri manneskja sem gæti staðið á sviði og væri tilbúin að setja sögu sína, sem er auðvitað ekkert sjálfgefið,“ segir Marta og tekur fram að Nazanin búi yfir miklu sjálfstrausti og eigi auðvelt með að koma fram. „Henni finnst gaman að flytja fyrirlestra. Hún hvílir vel í sjálfri sér og því reyndist ótrúlega auðvelt að fá hana til að stíga á svið,“ segir Marta og tekur fram að sýningin sé á mörkum þess að vera leiksýning og fyrirlestur, þótt allur texti sem fluttur er sé eftir niðurskrifuðu handriti.

Að sögn Mörtu var handrit sýningarinnar býsna lengi í vinnslu. „Enda krafðist viðfangsefnið mikillar rannsóknarvinnu. Auk þess tók bæði tíma að kynnast og mynda traust sem er forsenda þess að vinna svona sýningu,“ segir Marta og tekur fram að einnig hafi tekið dágóðan tíma að útfæra handritið og myndbandið sem Helena Stefánsdóttir hannaði fyrir sýninguna. „Það fór mikil vinna í að úthugsa hvernig vídeóið ætti að koma inn í söguna, hvar það ætti að styðja við, hvar það ætti að vera abstrakt og hvar raunsætt,“ segir Marta og tekur fram að myndbandið hjálpi áhorfendum að setja sig inn í framandi menningarheim. „Fáir vita mikið um Íran og hvernig pólitískar aðstæður eru þar, en við urðum að staðsetja Nazanin fyrir áhorfendum og raunveruleikatengja aðstæðurnar svo fólk áttaði sig á því hvaða sögu væri verið að segja. Síðan fannst okkur vídeó geta hjálpað til við að skapa tilfinningaleg áhrif með abstrakt hætti.“

Í ljósi viðfangsefnisins er óhætt að segja að sýningin talar mjög sterkt til samtímans þar sem málefni flóttafólks eru hátt á baugi. „Í raun hefur þetta málefni verið leikhúsinu hugleikið erlendis, þótt umfjöllunin hafi ekki náð hingað til Íslands fyrr en nú,“ segir Marta og bendir á að víða erlendis sé um það rætt að innflytjendur í fjölmenningarsamfélögum nái ekki upp á leiksviðið og ástæða sé til þess að breyta því til að endurspegla raunveruleikann. Þess má að lokum geta að næstu sýningar á Nazanin verða í Tjarnarbíói 18., 19. og 27. september og loks 7. október.