Berlín er borg mikilla andstæðna, hún er bæði falleg og ljót, aðlaðandi og fráhrindandi, minnisvarði um öldudali mannkynssögunnar og öldutoppa.

Berlín er borg mikilla andstæðna, hún er bæði falleg og ljót, aðlaðandi og fráhrindandi, minnisvarði um öldudali mannkynssögunnar og öldutoppa. Um þessar mundir er mikill uppgangur í borginni og því við hæfi að eitt helsta uppgangsliðið í körfubolta í Evrópu skyldi heyja frumraun sína í úrslitakeppni í Evrópumóti í borginni.

Víkverji dagsins naut þeirra forréttinda að vera meðal þeirra þúsund Íslendinga sem fóru að fylgjast með afrekum landsliðsins í Berlín og fögnuðu í fjörutíu mínútur að loknum síðasta leiknum eins og liðið hefði orðið meistari eftir að það hafði tapað í fimmta skipti í röð. Þrjóskan og þjóðin, Þór og Óðinn; slík var baráttan og fórnfýsin að ekki var hægt annað en dást að því hvernig liðið barðist gegn liðum, sem skipuð voru leikmönnum í fremstu röð úr NBA og öðrum öflugustu deildum heims.

Stundum var heldur ekki annað að sjá en andstæðingarnir væru pirraðir á þessum friðlausu Íslendingum, sem linntu ekki látum á vellinum í stað þess að sætta sig við að hlutverk þeirra í gangverki körfuboltans væri að vera fallbyssufóður stórþjóðanna í íþróttinni.

Íslendingar voru ekki þeir einu sem stóðu sig á pöllunum. Þjóðverjar studdu sína menn dyggilega en búast hefði mátt við meiri stuðningi við Tyrki miðað við hvað margir Tyrkir búa í Berlín. Serbar voru sérlega háværir og ötulir en menn með hermannahúfur sem hrópuðu nöfn stríðsglæpamanna settu blett á þeirra framkomu.

Eftir lokaleikinn komu leikmenn landsliðsins til fundar við stuðningsmenn á hóteli við hliðina á íþróttahöllinni þar sem leikirnir fóru fram. Hlynur Bæringsson fyrirliði hafði orð fyrir félögum sínum, þakkaði áhorfendunum stuðninginn og klykkti út með orðunum: „Ég vona að þið hafið skemmt ykkur jafn vel og við.“