Ingibjörg Árnadóttir fæddist 19. september 1922. Hún lést 13. ágúst 2015. Útförin fór fram í kyrrþey.

Okkur systurnar langar til að minnast elsku Immu ömmu okkar.

Það var alltaf gaman að koma á Mánaveginn til ömmu og afa og eyddum við oft miklum tíma hjá þeim. Við vorum alltaf velkomnar og buðu þau gjarnan næturgistingu. Þá vaknaði amma alltaf snemma og hnoðaði kleinudeig og vakti okkur til að við fengjum að snúa kleinunum. Hún var flinkur bakari og fyrir jólin var fastur punktur að fara til ömmu og afa að skera út laufabrauð. Þá var alltaf hátíðleg stund í eldhúsinu hjá henni, mikið spjallað og hlustað á jólalög.

Amma var mikil hestakona og þau afi fóru oft með okkur í hesthúsið. Það var gaman að koma þangað að gefa hestunum og moka flórinn en allra skemmtilegast fannst okkur að fá að fara á bak. Á góðviðrisdögum fórum við gjarnan í bíltúr um nærsveitir og á haustin var farið í berjamó. Þá var amma alltaf með tösku fulla af heimatilbúnu nesti, kaffibrúsa og kókómjólk sem við gæddum okkur á úti í náttúrunni.

Í okkar augum var Imma amma ein sterkasta kona sem við höfum kynnst og erum þakklátar fyrir að hafa haft hana sem fyrirmynd. Hún var okkur alltaf góð, hjálpaði ef eitthvað bjátaði á og passaði vel upp á okkur. Við minnumst hennar með hlýju.

Urður og Halla.