Arndís Ellertsdóttir fæddist 20. september 1938 . Hún lést 23. ágúst 2015. Útförin fór fram 8. september 2015.

Yndisleg bekkjarsystir okkar, Arndís Erlendsdóttir, lést sunnudaginn 23. ágúst sl.

Við bekkjarsystur hennar úr Kvennó viljum kveðja hana með nokkrum orðum.

Margar okkar kynntumst Arndísi fyrst þegar við vorum í Melaskólanum. Síðan lá leiðin í Kvennaskólann í Reykjavík þar sem við stunduðum nám árin 1951-1955. Við vorum fyrsti árgangurinn sem byrjaði í skólanum beint úr barnaskóla og þóttum við nokkuð ungar og barnalegar.

Við vorum samhentur hópur og héldum vel saman. Árin voru fljót að líða við leik og störf og fyrr en varði voru þessu fjögur ár liðin. Útskiftardagurinn var eftirminnanlegur. Við klæddumst dröktum, með nelliku í barmi, og eftir útskrift tókum við allar leigubíl upp að Vífilsstöðum, en þar dvaldi vegna veikinda okkar kæri kennari Þorvarður Örnólfsson.

Eftir að skóla lauk hélt bekkurinn lengi saumaklúbb, en það breyttist þegar við giftumst og fluttum margar úr foreldrahúsum í þrengra húsnæði. Sumar fóru utan í húsmæðraskóla eða annað nám. Aðrar héldu þó hópinn og á fimm ára fresti hittist árgangurinn allur og gerði sér dagamun.

Arndís flutti til Noregs og lærði hjúkrun. Við vorum svo heppnar að fá hana aftur til Íslands og ekki síður heppnar að fá eiginmann hennar, hann Mats Wibe Lund, þann ljúfa mann sem hefur gert svo mikið fyrir landið okkar og er einn okkar virtasti ljósmyndari.

Arndís var yndisleg manneskja, með stórt hjarta og hlýjan faðm. Hún var mjög félagslynd og alltaf tilbúin að hjálpa og undirbúa ef eitthvað stóð til hjá okkur.

Við höfum átt margar ánægjulegar samverustundir á heimili þeirra hjóna og alltaf var Mads mættur til myndatöku hvar sem við vorum staddar. Þær myndir eru okkur dýrmætur minningasjóður.

Eftir að við skólasystur komumst á eftirlaunaldur hefur árgangurinn átt saman samverustund einu sinni í mánuði okkur til mikillar ánægju. Þann 29 maí sl. áttum við 60 ára útskriftarafmæli og héldum daginn hátíðlegan. Í þetta sinn kom Arndís ekki að undirbúningi hátíðarinnar vegna veikinda sinna, en við fengum að njóta nærveru hennar í síðasta sinn.

Við bekkjasystur kveðjum Arndísi með miklum söknuði og vottum Mats, börnum þeirra og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Arndísar Ellertsdóttur.

F.h. bekkjasystra,

Ragnheiður Hermannsdóttir.