Hákon Björnsson
Hákon Björnsson
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Umhverfisstofnun hefur úthlutað Thorsil ehf. starfsleyfi sem heimilar Thorsil rekstur kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ. Starfsleyfinu var úthlutað hinn 11. september sl.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Umhverfisstofnun hefur úthlutað Thorsil ehf. starfsleyfi sem heimilar Thorsil rekstur kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

Starfsleyfinu var úthlutað hinn 11. september sl. og var forsvarsmönnum fyrirtækisins kunngert það í gær, að sögn Hákons Björnssonar, framkvæmdastjóra Thorsil.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á svæðinu, þar sem kísilmálmverksmiðjan mun rísa, hefjist strax í ársbyrjun 2016 en Hákon segir að þá hefjist jarðvegsvinna á svæðinu.

54 þúsund tonna framleiðsla

Thorsil hyggst byggja verksmiðju með tvo ofna, sem hafa samtals framleiðslugetu upp á 54 þúsund tonn á ári. Starfsleyfi fyrirtækisins heimilar hins vegar tvöfalt stærri verksmiðju, eða með framleiðslugetu upp á 110 þúsund tonn, en Hákon segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það hvort verksmiðjan verði stækkuð síðar.

Þegar hefur verið samið um sölu á 82 prósentum af árlegri framleiðslu verksmiðjunnar til átta og tíu ára. Hákon segir að verið sé að ljúka við samninga er snúa að orkumálum verksmiðjunnar en orkuþörf ofnanna tveggja er 87 megawött.

„Það er ljóst að horft er til Hvammsvirkjunar,“ segir Hákon og bætir við að lokið verði við samningagerð á næstu vikum.

Um 130 störf munu skapast í verksmiðjunni sjálfri og mun framleiðslan fara af stað í janúar 2018. Heildarfjárfestingin nemur 275 milljónum bandaríkjadala, sem nemur rúmlega 35 milljörðum íslenskra króna.

Íbúakosning í nóvember

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur samþykkt að íbúakosning fari fram um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík í nóvember nk. en kosningin snýr að því að átta lóðir voru sameinaðar í eina. Hákon segir kosninguna ekki munu hafa nein áhrif á áætlanir fyrirtækisins.