Helga J. Svavarsdóttir
Helga J. Svavarsdóttir
Eftir Helgu J. Svavarsdóttur: "Ég sakna þess að Björn Bjarki og aðrir aðilar í sveitarstjórn sem ákveða breytingar í fræðslumálum skuli ekki kynna sér málin betur."

Síðastliðinn föstudag, 11. september, var viðtal við Björn Bjarka Þorsteinsson, forseta sveitarstjórnar Borgarbyggðar, þar sem fram kemur vanþekking á starfi Hvanneyrardeildar Grunnskóla Borgarfjarðar. Í viðtalinu segir Björn Bjarki að breytingarnar sem fylgja því að loka Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar séu til bóta fyrir nemendur á Hvanneyri því þá verði minni líkur á samkennslu og þau fái kennslu í íþróttum og sundi en sú aðstaða sé ekki fyrir hendi á Hvanneyri.

Á Hvanneyri er rekin deild með fjórum árgöngum sem er hluti af stærri skóla; Grunnskóla Borgarfjarðar (GBf). Þar er, eins og í öðrum deildum skólans, metnaðarfullt starf sem hefur skilað góðum og eftirtektarverðum árangri. Gott samstarf er við leikskólann Andabæ og Landbúnaðarháskóla Íslands en samstarfssamningur er í gildi um samstarf þessara þriggja skóla. Lögð er áhersla á fjölbreytta kennsluhætti og útikennsla og umhverfismennt skipa stóran sess.

Björn Bjarki nefnir samkennslu árganga sem neikvæðan þátt í skólastarfi. Við kennum árgöngum saman og hefur það borið góðan árangur enda er það svo að í samkennslu verður áherslan á einstaklinginn og það ýtir undir einstaklingsmiðað nám sem við leggjum áherslu á. Niðurstöður samræmdra prófa í 4. bekk styðja þetta en ef tekið er saman meðaltal síðustu fjögurra ára er deildin hærri en landsmeðaltal bæði í íslensku og stærðfræði. Samkennsla árganga er víða stunduð í stærri skólum vegna þess að hún þykir bera góðan árangur. Má þar nefna Salaskóla, Ingunnarskóla, Norðlingaskóla og Sæmundarskóla. Greinar um kosti samkennslu eru auðfundnar með leit á Google og hvet ég Bjarka og aðra sem áhuga hafa á að kynna sér þær. Á heimasíðu Norðlingaskóla segir meðal annars:

„Rannsóknir benda til að nám og starf nemenda í aldursblönduðum hópum hafi örvandi áhrif á félagslegan þroska þeirra og efli forystu og félagslega ábyrga hegðun svo sem að hjálpast að, deila, skiptast á, taka tillit til annarra, segja satt o.s.frv. Rannsóknir benda einnig til að í aldursblönduðum nemendahópum sé auðveldara að skapa bekkjaranda sem einkennist af samhjálp, umburðarlyndi og umhyggju en til að svo megi vera verður að skipuleggja námsaðstæður þannig að kostir aldursblöndunarinnar fái að njóta sín.“

Ég sakna þess að Björn Bjarki og aðrir aðilar í sveitarstjórn sem ákveða breytingar í fræðslumálum skuli ekki kynna sér málin betur og taki þannig ákvarðanir byggðar á faglegum rökum. Eins og þeir telja sig vera að gera.

En Björn Bjarki, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, misskilur ekki bara samkennsluna. Hann telur að á Hvanneyri sé ekki aðstaða til íþrótta- og sundkennslu. Á Hvanneyri er mikill metnaður lagður í íþróttakennslu. Íþróttir eru kenndar fimm sinnum í viku. Íþróttahúsið er í um tveggja mínútna fjarlægð frá skólahúsinu. Það er eitt elsta, ef ekki elsta, íþróttahús sem er í notkun á landinu. Við köllum það íþróttahöllina okkar og erum mjög stolt af henni. Það er eitt af þeim húsum sem voru friðuð af forsætisráðherra í sumar við hátíðlega athöfn. Það er ekki stórt en það hentar mjög vel til íþróttakennslu yngri árganga. Auk þess er ágæt útiaðstaða, gervigrasvöllur og steyptur körfuboltavöllur. Við nýtum líka annað umhverfi og kennum íþróttir úti einu sinni í viku allt árið. Sundkennsla fer fram í Hreppslaug við ágætar aðstæður. Um fimm mínútna akstur er í Hreppslaug sem er ekki langt og það er ekki óalgengt á Íslandi að keyra þurfi nemendur í sundkennslu. Við veljum að kenna sund í lotukennslu þannig að nemendur koma á hverjum degi, í tvær vikur, klukkutíma í senn. Við erum ánægð með þetta fyrirkomulag og nemendur ná góðum árangri.

Starfsfólk Hvanneyrardeildar GBf leggur sig fram um að vinna faglega og vanda sína vinnu. Við hljótum því að geta farið fram á að fulltrúar í sveitarstjórn vinni faglega þegar þeir hyggjast breyta og bæta fræðslumál í sveitarfélaginu. Það er erfitt að horfa upp á jafnstóra ákvörðun og þá sem tekin var 11. júní; að loka Hvanneyrardeild GBf, rökstudda í fjölmiðlum með að því er virðist ófaglegum rökum og ósannindum.

Höfundur er deildarstjóri Hvanneyrardeildar Grunnskóla Borgarfjarðar.

Höf.: Helgu J. Svavarsdóttur