— Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Það er dásamlegt að ganga ein með hundinn úti og njóta þess að vera í friði og ró og leyfa honum stundum að hlaupa frjáls um,“ segir Lilja Sveinsdóttir sem fékk nýverið leiðsöguhundinn Oliver sem er af labrador-tegund. Formleg afhending hundsins fer fram í Blindrafélaginu í Hamrahlíð á morgun klukkan 17. Þá fær einnig Svanhildur Anna Sveinsdóttir leiðsöguhundinn Zören sem er einmitt bróðir Olivers. Þeir eru keyptir frá Svíþjóð.

Þetta er annar leiðsöguhundurinn sem Lilja fær í hendur frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, áður átti hún tíkina Asítu sem nú er komin á eftirlaun enda var hún komin með gigt. Lilja og Asíta voru því í stíl, að sögn Lilju; báðar með gigt. Blendnar tilfinningar bærðust í brjósti Lilju þegar hún þurfti að fá nýjan hund. Hundurinn fór þó ekki langt, til systur Lilju, og hittast þær því reglulega.

Ólíkir hundar

Nýi hundurinn Oliver er tveggja og hálfs árs. Hún getur reiknað með að hafa hann a.m.k. næstu sjö árin en gert er ráð fyrir að hundar vinni þar til þeir eru níu til þrettán ára gamlir. „Þetta eru tveir ólíkir hundar. Það er skemmtilegt að sjá hvað þeir vinna á ólíkan hátt. Það eina sem vantar upp á er að þjálfa Oliver í að vita hvar vörurnar eru í búðinni og að hann geti sagt mér hvaða strætó kemur,“ segir Lilja og hlær.

Hún hefur verið með Oliver í stuttan tíma en segir samband þeirra strax orðið mjög gott. Hún bjóst við að verða lengur að aðlagast Oliver en raun ber vitni því það tók hana lengri tíma þegar hún fékk fyrsta hundinn. Lilja segir ómetanlegt að fá að hafa leiðsöguhund. Hann hjálpi sér við allar daglegar athafnir eins og að komast til og frá vinnu í Blindravinnustofu Blindrafélagsins í Reykjavík. Lilja er því mjög sjálfstæð. Kostirnir við að hafa hund eru óteljandi og í ofanálag fylgir þeim mikill félagsskapur.

Prjónar og prjónar

Lilja hefur ekki alltaf verið sjónskert. Þegar hún var tuttugu og fjögurra ára fór að bera á svokölluðum RP-augnsjúkdómi sem er hrörnunarsjúkdómur í auga. „Ég sé allt þangað til annað kemur í ljós,“ segir Lilja, sem heldur fast í prjónana og prjónar við sterkt ljós.

Hress og líflegur vinnuhundur

„Hann er mjög hress, líflegur og traustur vinnuhundur. Þegar hann er ekki að vinna er hann svo fjörugur að manni dettur varla í hug að hann sé leiðsöguhundur,“ segir Drífa Gestsdóttir, leiðsöguhundaþjálfari miðstöðvarinnar. Oliver lauk lokaþjálfun hjá henni en hann hlaut grunnþjálfun í Svíþjóð, þar sem hann var keyptur, en Drífa er menntaður leiðsöguhundaþjálfari frá Svíþjóð.

Hún segir það hafa verið einstaklega gaman að vinna með þeim tveimur. „Þau eru mjög lík, bæði mjög hress og þetta hefur því verið eintóm gleði. Lilja er mjög góður leiðsöguhundanotandi og tekur hlutina ekki of alvarlega ef það verða einhverjir hnökrar,“ segir Drífa.