Færi Viktor Jónsson, hinn marsækni leikmaður Þróttar, er hér kominn í færi en til varnar er Terrance William Dieterich.
Færi Viktor Jónsson, hinn marsækni leikmaður Þróttar, er hér kominn í færi en til varnar er Terrance William Dieterich. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Hjörvar Ólafsson hjorvaro@mbl.is Þróttur og Haukar mættust í frestuðum leik úr 20. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu á Valbjarnarvellinum í gær.

Í Laugardal

Hjörvar Ólafsson

hjorvaro@mbl.is

Þróttur og Haukar mættust í frestuðum leik úr 20. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu á Valbjarnarvellinum í gær. Leiknum lyktaði með 1:1 jafntefli sem þýðir að Þrótti mistókst að tryggja sér sæti í efstu deild að ári.

Björgvin Stefánsson skoraði mark Hauka á 14. mínútu leiksins, en þetta er 20. mark Hauka í sumar. Jón Arnar Barðdal jafnaði svo metin undir lok fyrri hálfleiks. Viktor Jónsson hefði getað tryggt Þrótti sigurinn í leiknum og þar af leiðandi þátttökurétt í efstu deild næsta sumar, en hann misnotaði vítaspyrnu um miðbik seinni hálfleiks.

Þróttur hefði þurft sigur í þessum leik til þess að tryggja sér sæti í efstu deild að ári. Stigið sem Þróttur nældi sér í gæti þó reynst gulls ígildi. Þróttur er með 41 stig í öðru sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina sem leikin verður á laugardaginn kemur.

Þróttur er með þriggja stiga forystu á Akureyrarliðin Þór og KA sem mætast á Þórsvelli í lokaumferðinni. Þá er Þróttur með betri markatölu en bæði fyrrgreindu liðin. Þróttur er með sex marka forskot á KA og 14 mörkum betri markamun en Þór.

KA á því mun raunhæfari möguleika á því að skjótast upp fyrir Þrótt í lokaumferðinni, en til þess þarf KA að vinna erkifjendur sína Þór og Selfoss að vinna Þrótt og munurinn á þessum sigrum meira en sex mörk. Þróttur lék síðast í efstu deild í knattspyrnu karla árið 2009 og eru þeir því orðnir langeygir eftir því að leika á meðal þeirra bestu í karlaflokki.