Stefán Eiríksson
Stefán Eiríksson
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir engan vafa leika á því að kerfi eins og velferðarkerfi borgarinnar þurfi alltaf að vera í stöðugri þróun, til þess að mæta þeim kröfum sem að því snúa.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir engan vafa leika á því að kerfi eins og velferðarkerfi borgarinnar þurfi alltaf að vera í stöðugri þróun, til þess að mæta þeim kröfum sem að því snúa. „Velferðarsvið borgarinnar er á þeim stað og er í raun í ákveðnu breytingaferli, sem staðið hefur undanfarin tvö ár, sem hófst undir stjórn fyrrverandi sviðsstjóra,“ sagði Stefán í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann var spurður álits á ummælum Bjarkar Vilhelmsdóttur, fyrrverandi formanns velferðarráðs Reykjavíkurborgar, um að ráðast þurfi í breytingar á velferðarkerfi borgarinnar.

Stefán bendir á að út sé komin ný og mjög góð skýrsla um þjónustuveitingu borgarinnar. „Hún snýr ekki síst að velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Þar er fullt af góðum tillögum, sem ég held að sé áhugi á innan velferðarráðs að skoða og þróa áfram,“ sagði Stefán.

Leysir ekki vandann

Aðspurður um þau orð Bjarkar, sem nýr formaður velferðarráðs, Ilmur Kristjánsdóttir, tók að hluta til undir í Morgunblaðinu gær, að ákveðin veikleikavæðing hefði átt sér stað innan velferðarkerfisins og skilyrða þyrfti fjárhagsaðstoð sagði Stefán: „Hvað þau ummæli varðar erum við komin út í allt aðra sálma en það sem snýr að skipulagi á sviðinu sjálfu. Að hluta til snýst sú gagnrýni sem Björk setti fram að þeirri löggjöf og því lagaumhverfi sem öll sveitarfélög búa við þegar kemur að fjárhagsaðstoð, ekki bara Reykjavík.“

Stefán segir að það hafi alls ekkert staðið á velferðarsviði borgarinnar í þeim efnum.

„Það hefur ítrekað verið bent á það að þú leysir ekkert vanda fólks sem er á fjárhagsaðstoð með því að setja einhver skilyrði. Í einhverjum tilvikum getur það gerst og haft góð áhrif, en yfir línuna alls ekki. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er neyðaraðstoð og þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð eru í brýnni þörf fyrir slíka aðstoð. Þetta er á engan hátt sambærilegt við bótakerfi ríkisins, því þetta er bara öryggisnetið sem þeir falla á sem eru fyrir utan öll önnur kerfi. Eðli málsins samkvæmt eigum við að gera allt sem í okkar valdi er til þess að koma fólki sem fyrst til aðstoðar, á fætur og til sjálfsbjargar. Það er það sem við erum að vinna að á hverjum einasta degi,“ sagði Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs.

Fjárhagsaðstoð
» Björk Vilhelmsdóttir, fyrrverandi formaður velferðarráðs, gagnrýndi velferðarkerfið og sagði af sér.
» Ilmur Kristjánsdóttir, nýr formaður ráðsins, tekur að hluta til undir gagnrýni Bjarkar.
» Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarráðs, segir að þeir sem þiggi fjárhagsaðstoð sveitarfélaga séu í brýnni þörf og skylt sé að aðstoða þá.