Mörk Sýningin Molière hófst á því að leikarar kynntu sig og sögðu frá lífi sínu. Leikstjórinn segist hafa viljað draga ákveðna línu í sandinn.
Mörk Sýningin Molière hófst á því að leikarar kynntu sig og sögðu frá lífi sínu. Leikstjórinn segist hafa viljað draga ákveðna línu í sandinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þessi helgi er einhver besti tími ævi minnar. Með UR tókst okkur að skapa einstakan draumkenndan heim meðan Molière var eins og sturlaðasti gjörningur sem ég hef nokkurn tímann lent í.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þessi helgi er einhver besti tími ævi minnar. Með UR tókst okkur að skapa einstakan draumkenndan heim meðan Molière var eins og sturlaðasti gjörningur sem ég hef nokkurn tímann lent í. Þegar ég er sjálfur farinn að rífast við áhorfendur meðan á sýningunni stendur um sýninguna þá er eitthvað einstakt að gerast inni í leikhúsrýminu,“ segir Þorleifur Örn Arnarsson, sem um liðna helgi frumsýndi tvær sýningar í bænum Trier í Þýskalandi við mjög blendnar viðtökur. Síðastliðinn föstudag var nútímaóperan UR eftir Önnu Þorvaldsdóttur frumsýnd og hlaut mikið lof gagnrýnenda, en daginn eftir var frumsýnd leiksýning sem nefnist Molière og byggist fyrst og fremst á leikritinu Tartuffe eftir Molière við misjafnar viðtökur.

„Í Þýskalandi er það þannig að þegar nýr leikhússtjóri tekur við er öllum starfsmönnum hússins skipt út. Það eina sem eftir stendur er byggingin þannig að það verður í raun til nýtt leikhús. Þegar Karl Sibelius, nýr leikhússtjóri í Trier, bauð mér að setja upp bæði fyrstu óperusýninguna og fyrstu leiksýninguna fannst mér nauðsynlegt að skoða vel hvað felist í því að vera frumflytjandi í nýju leikhúsi. Fráfarandi leikhússtjóri var vægast sagt íhaldssamur og hafði reynt að þóknast smekk almennings, sem verður oft algjörlega smekklaust. Sökum þessa valdi ég að vinna með Molière á mjög róttækan hátt til þess að draga ákveðna línu í sandinn og nýir stjórnendur voru sammála þeirri sýn minni.“

10% áhorfenda gengu út

Þorleifur segist hafa lagt áherslu á það við leikhóp sinn að ef þeim tækist vel upp myndu 10% leikhúsgesta labba út af sýningunni, 20% myndu vera himinlifandi með kvöldið, en að sýningin snerist um þau 70% sem eftir yrðu og skapa þyrfti leikhús fyrir þann hóp. „Þetta var 500 manna salur og 50 manns gengu út og fóru beint í miðasöluna til að segja upp áskriftinni sinni við leikhúsið. Það var nákvæmlega það sem þurfti að gerast. Ef áhorfendum mislíkaði þessi uppfærsla mín mun þeim einnig mislíka þær sýningar sem á eftir fylgja.“

Aðspurður um nálgun sína á Molière segist Þorleifur Örn hafa verið mjög upptekinn af þeirri ritskoðun sem Molière mátti búa við á sínum tíma. „Molière barðist við kónga og páfa sem vildu ritskoða verk hans, en í nútímanum þurfa listamenn að berjast við kröfur markaðarins og hagræðingarkröfur í leikhúsrekstri. Stjórnunartæki kapítalismanns og skemmtanaiðnaðar nútímans eru í raun ekki annað en afætur á listsköpun,“ segir Þorleifur og bendir á að sér hafi þótt mikilvægt að finna nýja nálgun sem undirstrikaði sérstöðu leikhússins.

„Sérstaða leikhússins felst í því að allt sem gerist á sviðinu er lifandi atburður og áhorfendur eru vitni atburðanna. Frábær leið til að opna dyrnar milli áhorfenda og leikara er að láta leikara kynna sig í upphafi sýningarinnar og segja frá lífi sínu,“ segir Þorleifur Örn og tekur fram að sér finnist líka mikilvægt að undirstrika að allt sem gerist á leiksviðinu sé blekking. „Í ljósi þess er leikhúsið svo stórkostlegur staður til að skoða manneskjuna.“ Spurður um notkun sína á málningunni í sýningunni svarar Þorleifur: „Notkun málningarinnar bauð upp á áhugaverðasta samtalið um list í nútímanum sem úrkynjað fyrirbæri sem stendur ekki undir því sem það á að gera,“ segir Þorleifur og tekur fram að það sé ekki markmið hans í sjálfu sér að storka áhorfendum.

Skylda við tónskáldið

Spurður um nálgun sína á UR eftir Önnu Þorvaldsdóttur bendir Þorleifur á að hann sem leikstjóri hafi ekki jafnmikið frelsi til túlkunar þegar um er að ræða frumuppfærslu nýs verks. „Ég var mér mjög meðvitaður um skyldur mínar gagnvart höfundinum. Anna er búin að leggja gríðarlega vinnu og hugsun í UR og verkið á það skilið að eignast sitt eigið líf áður en einhver fer að túlka það sem eitthvað annað. Það þýðir þó ekki að maður verði að þjónusta sýn einhvers annars. Í samvinnu við Önnu Rún Tryggvadóttur leikmyndahönnuð reyndi ég að fara milda og ljóðræna leið að verkinu til að skapa draumkenndan heim á sviðinu þar sem hægt er að velta fyrir sér stórum heimspekilegum spurningum án þess að fara yfir í helgislepju.“

Sem kunnugt er mun Þorleifur leikstýra Njálu í Borgarleikhúsinu um jólin. Spurður hverju áhorfendur megi eiga von á segir Þorleifur að það verði eitthvað fyrir alla í sýningunni. „Þar sem Njála er allra langar mig að skapa sýningu þar sem allir fá eitthvað fyrir sinn snúð,“ segir Þorleifur og tekur fram að sér finnist líklegt að hann nálgist verkið með ofurraunsæi að leiðarljósi. „Það verður töluð forníslenska í bland við alls kyns flipp,“ segir Þorleifur og bendir á að áhorfendur muni geta leigt sér búning í stíl við efnið.

Misstu af ánægjulegu kvöldi

Þorleifur Arnarsson leikstjóri var í sviðsljósinu þegar leikárið hófst við Trier-leikhúsið þar sem nýr leikhússtjóri, Karl Sibelius, hefur tekið við taumunum. Uppfærslur Þorleifs á óperunni UR eftir Önnu Þorvaldsdóttur og leikverkinu Molière fá góða dóma í vefmiðlinum nachtkritik.de, en seinna verkið féll ekki öllum áhorfendum í geð.

Í umsögn Rainers Noldens í nachtkritik.de segir að á mælikvarða Trier krefjist ópera Önnu aðlögunar, en fagnaðarlætin hafi borið hrifningu áhorfenda vitni. Í vefmiðlinum Volksfreund.de segir að hinn nýi leikhússtjóri hafi tekið áhættu með því að hafa óperuna sína fyrstu sýningu, en áhorfendur hafi tekið henni vel. Tónlistin hitti í stórum dráttum í mark og tónskáldinu, flytjendum, stjórnendum og leikstjóra er hrósað.

„Næsta dag var fyrsta leikrit ársins frumsýnt – og fyrsta leikhúshneyksli borgarinnar í langan tíma í höfn,“ skrifar Nolden. „Eða öllu heldur örhneyksli, því rúmlega 50 manns, sem við hávær mótmæli brölta út úr salnum, er þegar upp er staðið óverulegur fjöldi.“

Rýnirinn spyr hvað hafi styggt dygga leikhúsgesti svo að nokkrir þeirra sögðu upp áskriftinni í miðasölunni á leiðinni út. Í verkinu hafi nýir leikararar staðið á sviðinu og talað um sjálfa sig líkt og í atvinnuviðtali, dottið inn og út úr rullum sínum og endurtekið atriði. Sumt af því hafi ekki verið fyndið til lengdar. Ávallt þegar tilfinningar hafi verið við að blossa upp hafi þeim verið drekkt í málningu allt fram að uppgjöri verksins. „Á þeim punkti voru mótmælendurnir líklega löngu komnir heim og munu aldrei komast að hvað þeir misstu af ánægjulegu leikhúskvöldi,“ segir Nolde og bætir við að leikhópurinn hafi farið á kostum og þeir, sem eftir voru í salnum, hafi fagnað leikhópi og leikstjóra verðskuldað með dynjandi lófataki.