Félagar Vinny Wood, Una Sigurðardóttir og Enrico Preuß frá Þýskalandi sem var sjálfboðaliði í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði í þrjá mánuði.
Félagar Vinny Wood, Una Sigurðardóttir og Enrico Preuß frá Þýskalandi sem var sjálfboðaliði í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði í þrjá mánuði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Við stefnum að því að hljóðverið verði tilbúið í desember á þessu ári,“ segir Una Sigurðardóttir, einn af umsjónarmönnum Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Við stefnum að því að hljóðverið verði tilbúið í desember á þessu ári,“ segir Una Sigurðardóttir, einn af umsjónarmönnum Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði. Þar hefur verið unnið undanfarið að uppsetningu 90 fermetra analog- og stafræns hljóðupptökuvers sem nefnist Stúdíó Síló. Analog hljóðupptaka er upptaka með segulbandstæki.

Bandaríkjamaðurinn John H. Brandt var fenginn til að hanna hljóðupptökuverið. „Við vorum mjög heppin að fá hann,“ segir Una. Brandt er þekktur hönnuður og ráðgjafi og hefur m.a. hannað upptökuver í yfir 40 löndum.

Markmiðið er að skapa aðstöðu fyrir tónlistarfólk þar sem það getur fullklárað sköpunarferlið við útgáfu á tónlist.

Í umræddri Sköpunarmiðstöð, sem er gamalt frystihús, tæplega þrjú þúsund fermetrar á stærð, er einnig járn-, tré- og rafmagnsverkstæði, eldhús og bókasafn og 150 fermetra tónleikasalur í gamla frystinum svo fátt eitt sé nefnt.

Geta fullunnið vöruna

„Þegar hljóðverinu hefur verið komið upp verður hér öll aðstaða fyrir tónlistarfólk sem það getur nýtt sér t.d. prentað út umslög og umbúðir, silkiþrykkt á boli og veggspjöld, tekið upp tónlistarmyndbönd svo ekki sé nú talað um að nýta þennan frábæra tónleikasal,“ segir Una.

Rekstur hljóðversins er kostnaðarsamur og fyrir ári var verkefnið m.a. fjármagnað að hluta í gegnum Karolinafund. „Við gætum þetta ekki nema fyrir allan þann stuðning sem við höfum fengið frá nærsamfélaginu, fyrirtækjum víða um land og eins vegna styrks frá uppbyggingarsjóði Austurlands,“ segir Una.

Una er fædd og uppalin í Reykjavík en flutti á Stöðvarfjörð fyrir tveimur árum og líkar dável. Hún hefur unnið hörðum höndum að því að bæta aðstöðu Sköpunarmiðstöðvarinnar ásamt manni sínum, Vinny Wood tónlistarmanni, og listakonunni Rósu Valtingojer. Rósa stofnaði árið 2010, ásamt hópi fólks, samvinnufélag um kaup á frystihúsinu, sem átti að rífa, af sveitarfélaginu. Samvinnufélagið á húsið. Markmiðið var að búa til stað þar sem ólíkar listgreinar gætu starfað samhliða, sem myndi fjölga atvinnutækifærunum í byggðinni. Fimm árum áður lagðist starfsemi frystihússins af og stóð það því autt frá árinu 2005.

Á þeim fimm árum sem liðin eru síðan hópurinn fékk húsið í hendurnar hefur húsnæðið gengið í gegnum mikla endurnýjun og unnið er að stöðugum endurbótum eins og t.d. að koma kyndingu hússins í lag, efla eldvarnir, bæta vatnslagnir, smíða og lagfæra húsnæðið. Húsið hefur nánast að öllu leyti verið gert upp í sjálfboðaliðavinnu og er rekið enn í dag í sjálfboðavinnu.

Erlendir listamenn sækja í kyrrðina á Stöðvarfirði

Sköpunarmiðstöðin rekur svokallaða listamannaresidensíu. Það er aðstaða fyrir listamenn sem þeir geta leigt; íbúð og vinnuaðstaða í Sköpunarmiðstöðinni. Þeir dvelja þar í einn og upp í sex mánuði í senn. Vel hefur gengið að fylla plássin. Kostnaðurinn er 600 og 700 evrur á mánuði eða rúmlega 86 þúsund til rúmlega 100 þúsund krónur á mánuði, miðað við gengi evrunnar í dag.

„Áhuginn hefur aukist mikið. Það koma sífellt fleiri listamenn á hverju ári en við opnuðum árið 2014. Að meðaltali hafa verið tveir listamenn á mánuði undanfarið,“ segir Una.

Enn sem komið er eru flestir listamennirnir erlendir og þeir koma frá öllum heimshornum, t.d. frá Taívan, en í apríl á næsta ári kemur fyrsti íslenski listamaðurinn. Una segist hlakka til að taka á móti fleiri íslenskum listamönnum.

Þá eru jafnan einn til tveir sjálfboðaliðar sem starfa í Sköpunarmiðstöðinni í skamman tíma og eru þeir búsettir í listamannaíbúðinni.

Pólar festival

Skapandi andar svífa yfir vötnum á Stöðvarfirði og setja sterkan svip á bæjarlífið. Í sumar var t.d. haldin listahátíðin Pólar, sem er haldin þar á tveggja ára fresti, og tókst hún einstaklega vel að sögn Unu.

„Ég sé fyrir mér áframhaldandi vöxt í starfseminni. Við stefnum á að fá skólafólk hingað inn og að geta boðið upp á ýmiskonar námskeið fyrir alla,“ segir Una aðspurð hvernig hún sjái fyrir sér Sköpunarmiðstöðina eftir nokkur ár.