Halldór Jóhann Sigfússon
Halldór Jóhann Sigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Átta af 14 liðum Olís-deildar kvenna fengu nýjan þjálfara til liðs við sig fyrir þetta keppnistímabil. Halldór Jóhann Sigfússon stýrir nú FH-liðinu í stað Guðmundar Pedersen og Magnúsar Sigmundssonar.

Átta af 14 liðum Olís-deildar kvenna fengu nýjan þjálfara til liðs við sig fyrir þetta keppnistímabil.

Halldór Jóhann Sigfússon stýrir nú FH-liðinu í stað Guðmundar Pedersen og Magnúsar Sigmundssonar. Halldór Jóhann hefur í mörg horn að líta því hann er einnig þjálfari karlaliðs FH annað árið í röð.

Óskar Ármannsson var ráðinn þjálfari Hauka í vor eftir að Halldór Harri Kristjánsson ákvað að söðla um. Halldór Harri tók við þjálfun Stjörnunnar af Ragnari Hermannssyni og Rakel Dögg Bragadóttur.

Hilmar Guðlaugsson sagði starfi sínu lausu hjá HK við lok keppnistímabilsins og tók við þjálfun Selfoss ásamst Sebastían Alexanderssyni sem var einn við stjórnvölinn á síðustu leiktíð.

Við starfi Hilmars hjá HK tóku Ólafur Víðir Ólafsson og Hákon Bridde.

Alfreð Örn Finnsson varð þjálfari Valsliðsins með Óskari Bjarna Óskarssyni í febrúar á þessu ári eftir að hafa flust frá Noregi. Alfreð Örn er nú einn í brúnni á Hlíðarendaskútunni enda þrautreyndur í sínu starfi.

Leikjahæsta landsliðskona Íslands og eins sú sigursælasta, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, ákvað að hefja þjálfaraferilinn í meistaraflokki af fullum þunga. Hún réð sig til ÍBV og tók við búi Jóns Gunnlaugs Viggóssonar sem stýrt hafði Eyjaliðinu í tvö ár.

Sigurjón Friðbjörn Björnsson var ráðinn þjálfari ÍR í sumar en ÍR var nýliði í deildinni á síðasta keppnistímabili. Björgvin Rúnarsson stýrði ÍR-liðinu á síðasta vetri en hætti skömmu fyrir lok leiktíðar. iben@mbl.is