Sérstök styrktarsýning á kvikmynd Baltasars Kormáks, Everest, verður haldin í kvöld kl. 19 í Laugarásbíói. Allur ágóði af sýningunni rennur í styrktarsjóð fyrir Nepal til endurbyggingar eftir jarðskjálftann sem reið yfir landið fyrr á árinu.

Sérstök styrktarsýning á kvikmynd Baltasars Kormáks, Everest, verður haldin í kvöld kl. 19 í Laugarásbíói. Allur ágóði af sýningunni rennur í styrktarsjóð fyrir Nepal til endurbyggingar eftir jarðskjálftann sem reið yfir landið fyrr á árinu. Everest var að hluta til tekin upp í Nepal og er myndin byggð á sannri sögu um mannskæðan leiðangur á tind hæsta fjalls heims, Everest. Í aðalhlutverkum eru heimskunnir kvikmyndaleikarar, m.a. Josh Brolin, Jake Gyllenhaal, Keira Knightley, Jason Clarke, Emily Watson, Sam Worthington, Robin Wright og John Hawkes.

Sýningin í kvöld verður sú fyrsta sem haldin er hér á landi á myndinni og fá allir gestir frítt popp og kók ásamt veglegum glaðningi frá 66°Norður. Sýningin er haldin í samstarfi við 66°Norður, Rvk. Studios, Myndform og Universal Pictures. Miðasala fer fram á midi.is og í miðasölu Laugarásbíós og er miðaverð 3.000 kr. Myndin verður frumsýnd um allan heim á föstudaginn, 18. september.