[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fólki sem hefur verið atvinnulaust í 12 mánuði eða lengur hefur fækkað mikið á síðustu misserum. Samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar varð fjöldinn mestur í mars 2011 en þá höfðu 4.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fólki sem hefur verið atvinnulaust í 12 mánuði eða lengur hefur fækkað mikið á síðustu misserum.

Samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar varð fjöldinn mestur í mars 2011 en þá höfðu 4.837 einstaklingar verið án vinnu lengur en í ár. Eins og sýnt er á grafinu hér til hliðar hefur þeim svo farið stigfækkandi og var talan komin niður í 1.134 í nýliðnum ágústmánuði.

Á þessari skrá eru einstaklingar sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Hámarkstími slíkra bóta hefur verið styttur á síðustu árum, nú síðast um áramótin, úr 36 í 30 mánuði. Kann þetta að eiga þátt í því að þeim sem höfðu verið án vinnu í ár eða lengur fækkaði um 187 milli mánaða í desember og janúar. Þeim hafði svo fækkað um 160 til viðbótar í ágúst, voru þá alls 1.134.

Fram kom í Morgunblaðinu 31. desember 2014 að 484 einstaklingar myndu missa bótarétt við styttingu bótatímabilsins úr 36 í 30 mánuði. Talan var ekki sundurgreind eftir tímalengd atvinnuleysis hjá fólkinu.

Bótatímabilið stytt tvisvar

Þetta er í annað sinn sem bótatíminn er styttur eftir efnahagshrunið. Þannig var hámarksbótatíminn lengdur með bráðabirgðaákvæði úr 36 mánuðum í 48 mánuði og skyldi það gilda til áramóta 2012. Þessi réttur var svo framlengdur til ársloka 2012 en varð upp frá því aftur að hámarki til 36 mánuða.

Líklegt er að þessi stytting hafi áhrif á fjölda fólks sem var skráð án vinnu í 12 mánuði eða lengur á árinu 2013. Það varð í öllu falli mikil fækkun í þessum hópi milli áranna 2012 og 2013 eins og lesa má út úr grafinu hér fyrir ofan.

Þá hefur það áhrif á þennan fjölda að í ágúst sl. voru 249 einstaklingar skráðir í vinnumarkaðsúrræði. Fram kemur í nýrri ágústskýrslu Vinnumálastofnunar að þessi úrræði séu greidd af Atvinnuleysistryggingasjóði, en viðkomandi einstaklingar eru í vinnu og teljast því ekki með í atvinnuleysistölum.

Annar mælikvarði á stöðuna á vinnumarkaði er að skoða fjölda fólks sem er utan vinnumarkaðar, samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar. Tölur fyrir ágúst eru ekki komnar og var því borið saman tímabilið frá janúar til júlí árin 2007 til 2015. Miklar sveiflur geta verið milli mánaða í þessum könnunum Hagstofunnar. Því er hér tekið meðaltal sjö mánaða. Það kemur ekki á óvart að fæstir voru utan vinnumarkaðar þessa mánuði árið 2007, eða 34.057 að meðaltali. Þeim fjölgaði svo í 37.129 þessa mánuði 2008. Þeir voru að meðaltali 41.814 þessa mánuði árið 2009, 40.300 árið 2010, 40.829 árið 2011 og 41.586 árið 2012. Árið 2013 voru þeir að meðaltali 41.886, árið 2014 alls 41.686 og í ár voru 39.743 að meðaltali utan vinnumarkaðar fyrstu sjö mánuði ársins.

Nú fleiri utan vinnumarkaðar

Samkvæmt þessum tölum voru því rúmlega 2.600 fleiri utan vinnumarkaðar á þessu tímabili í ár en sömu mánuði árið 2008.

Ber í þessu efni að hafa í huga að mannfjöldinn var 315.459 á nýársdag 2008 en 329.100 í byrjun þessa árs. Starfandi fólki hefur líka fjölgað á tímabilinu frá janúar til júlí milli áranna 2008 og 2015, eða um 4.129 að meðaltali, samkvæmt tölum úr könnun Hagstofunnar. Það segir sitt um efnahagsbatann að atvinnuleysi skuli hafa minnkað svo mikið þrátt fyrir þessa fjölgun starfandi.

Samkvæmt könnun Hagstofunnar var atvinnuleysið í júlí 3,2%. Tölur fyrir ágúst eru ekki komnar.

Atvinnuleysið komið í 2,6%

Samkvæmt nýrri ágústskýrslu Vinnumálastofnunar var atvinnuleysi þá að meðaltali 2,6%. Alls voru 4.497 atvinnulausir í ágúst og fækkaði atvinnulausum um 181 að meðaltali frá júlí. Hlutfallstala atvinnuleysis breyttist þó ekki.

Til samanburðar voru 16.822 án vinnu í mars 2009, 10.707 karlar og 6.115 konur. Það var mesti fjöldi atvinnulausra á kreppuárunum, samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar.

Frank Friðriksson, hagfræðingur hjá Vinnumálastofnun, áætlar að atvinnuleysið fari niður í 2,5% í þessum mánuði. Þær tölur verði birtar um miðjan október. „Atvinnuleysið minnkar iðulega í september frá því í ágúst. Samhliða því að fækkar á vinnumarkaði í september er talsverð eftirspurn eftir vinnuafli í ýmsum greinum. Því er líklegt að atvinnuleysi minnki í september,“ segir Frank Friðriksson.