Ester Hún kann vel við sig í óbyggðum og hefur varið þar miklum tíma.
Ester Hún kann vel við sig í óbyggðum og hefur varið þar miklum tíma. — Ljósmynd/Marie-Hélène Baconnet
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í tilefni Dags íslenskrar náttúru, sem er í dag, ætla nokkrir starfsmenn Náttúrustofnunar Íslands að segja í máli og myndum stuttlega frá því í hádeginu sem þeir hafa verið að rannsaka í sumar.

Í tilefni Dags íslenskrar náttúru, sem er í dag, ætla nokkrir starfsmenn Náttúrustofnunar Íslands að segja í máli og myndum stuttlega frá því í hádeginu sem þeir hafa verið að rannsaka í sumar. Þeirra á meðal er Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur en hún hefur rannsakað refinn í friðlandinu á Hornströndum undanfarin 18 ár. Hún setur ákveðinn fyrirvara á það að fólk sé að spekja refi og gefa þeim að éta.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég fer um Hornvík, Hælavík, Hlöðuvík og Kjaransvík í rannsóknum mínum á sumrin. Ég fylgist með hversu mörg óðalspör eru á svæðinu og það hefur verið mjög stöðugt, en það sem er breytilegt er hvort parið er með yrðlinga eða ekki. Stundum misferst gotið hjá þeim af einhverjum ástæðum. Parið hefur kannski komið á óðal eftir fengitíma læðanna, en þær eru frjóar í mjög stuttan tíma hverju sinni. Nú eða yrðlingarnir drepast af einhverjum ástæðum,“ segir Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur sem hefur verið að rannsaka refina í friðlandinu á Hornströndum undanfarin 18 ár. Hún segist ekki verja eins miklum tíma á Hornströndum nú og hún gerði áður, en mest hefur hún verið í 12 vikur samfleytt.

„Það var þegar við vorum með ýtarlega atferlisrannsókn, en þegar ég er að rannsaka óðulin tekur það ekki nema þrjár vikur. Við siglum þangað á báti og verðum að fara þetta allt á fæti. Ég hef verið svo heppin að vera með sjálfboðaliða með mér undanfarin ár og þarf ekki að sitja sjálf yfir öllum grenjum.“

Baráttan um óðulin er hörð

Eðli málsins samkvæmt hefur Ester komist að ýmsu um refina á þessum 18 árum sem hún hefur rannsakað þá.

„Hvert par virðist ekki geta haldið óðali sínu í meira en fimm ár, en ef ekkert kemur upp á hjá parinu er kerfið mjög stöðugt og enginn virðist ögra því. Þegar umskipti verða og nýtt par tekur við verður stundum ákveðinn óróleiki á svæðinu, en það er mikill þéttleiki þarna og baráttan um óðulin er hörð. Gera má ráð fyrir að dýrin þurfi að hafa meira fyrir sínu í friðlandinu en á öðrum stöðum þar sem refur er veiddur, því þá losna greni.“

Ester segir að ekki sé fjölgun á óðulum sem eru í boði í friðlandinu og af því megi ráða að fæðuframboð sé stöðugt. „Refur víkur ekki af óðali nema hann drepist, vegna aldurs eða veikinda. Þeir virðast ekki ná óðali fyrr en í fyrsta lagi við tveggja ára aldur. Afföllin eru því væntanlega mikil. “

Sá minnsti flutti lengst

Sumir refanna flytja væntanlega út af friðlandssvæðinu, enda eru óðul utan við það.

„Það er heilmikið af ref sunnan friðlands báðum megin enda er mjög gott refaland á Vestfjörðum, á öllum annesjum og skerjum þar sem eru fuglar og eitthvað að finna í fjöru. Það er ansi þétt víða af því refastofninn er stór á Íslandi.“

Í atferlisrannsóknum hefur Ester rannsakað framlag hvors foreldris, hversu oft þau komu heim að greni með fæðu og hvort það breyttist eftir að læðan hætti að mjólka.

„Niðurstaða þeirra rannsókna var að bæði læðan og refurinn fara til að sækja æti handa yrðlingunum og veitir ekki af, því þeir stækka mjög hratt. Vissulega fer refurinn oftar en læðan á meðan hún mjólkar, en eftir að hún hættir að mjólka annast þau bæði fæðuöflun. Ef annað þeirra fellur frá missa þau yrðlingana og óðalið. Eitt foreldri virðist ekki komast yfir að sækja nægilega mikið af fæðu til að halda þeim lifandi,“ segir Ester sem einnig skoðaði slagsmálahegðun eða leikhegðun yrðlinganna og hvort það væri einhver goggunarröð í hópnum. „Við vorum með tvö greni í þessari rannsókn og annað var með misstóra yrðlinga og þar var goggunarröð, en sá sem var minnstur flutti lengst frá greninu, hvort sem það var orsök eða afleiðing. Á hinu greninu voru allir yrðlingarnir jafnstórir og þeir fóru mislangt, flestir eignuðust óðal innan svæðisins en einhverjir drápust strax um veturinn.“

Þetta dýr á að vera hrætt við menn og forðast fólk

Ester segist vissulega hafa myndað ákveðin tengsl við einstaklinga meðal refa þegar hún var að byrja í refarannsóknum fyrir 18 árum.

„En ég forðast það núna, því þótt maður hafi óskaplega gaman af refunum má maður ekki hafa áhrif á atferli þeirra ef maður er að rannsaka það. Ég hef reyndar sjálf lent í því að eyðileggja atferlisrannsókn með of manngæfum refum. Ég set ákveðinn fyrirvara á það að fólk sé að spekja refi og gefa þeim að éta. Það endar alltaf með ósköpum, því þetta dýr á að vera hrætt við menn og forðast fólk og mannabústaði. Ef yrðlingum er gefið frá unga aldri, allt sumarið, minnka lífslíkur þeirra yfir veturinn, þeir þurfa að kunna og geta bjargað sér yfir harðasta tímann. Veiðieðlið er afar ríkt í þeim, en einstaklingarnir eru mishæfir. Það fer líka eftir því hvað veturinn er harður hvort þeir lifa hann af á fyrsta ári sínu.“

Nærvera ferðamanna hefur áhrif

Núna er Ester að skoða atferli refa í tengslum við ferðamenn, hvort ágangur ferðamanna hafi áhrif á fjölda heimsókna refaforeldra á grenið, hvort parið komi sjaldnar heim með mat til að gefa yrðlingunum.

„Við erum enn að taka þetta saman en það bendir margt til þess að nærvera ferðamanna hafi áhrif á heimsóknir og þar af leiðandi fæðugjafir foreldra. Óðalsskiptin eru líka orðin tíðari með vexti ferðamanna á þessu svæði. Áhugi fólks á refum hefur vaxið, fólk gengur ekki fram hjá þeim eins og var hér áður, heldur situr yfir þeim lengi og fyrir vikið fer refurinn sjaldnar heim á grenið sitt með æti handa yrðlingunum.“

Nánar um rannsóknir á ref á vefsíðunni: www.melrakki.is og á flipanum Hrafnaþing inni á vefsíðu náttúrufræðistofnunar: www.ni.is. (Þar er m.a hægt að sjá myndband þar sem Ester sagði frá hruninu sem varð í refastofninum í friðlandinu á Hornströndum í fyrra.)