Erfitt Kári Árnason og Oscar Lewicki í baráttu gegn Blaise Matuidi á Parc des Princes vellinum í gærkvöld.
Erfitt Kári Árnason og Oscar Lewicki í baráttu gegn Blaise Matuidi á Parc des Princes vellinum í gærkvöld. — AFP
Meistaradeildin Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Kári Árnason og samherjar hans í sænska meistaraliðinu Malmö töpuðu fyrir franska meistaraliðinu Paris SG, 2:0, í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu sem hófst í gærkvöld.

Meistaradeildin

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Kári Árnason og samherjar hans í sænska meistaraliðinu Malmö töpuðu fyrir franska meistaraliðinu Paris SG, 2:0, í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu sem hófst í gærkvöld.

Kári stóð vaktina allan tímann í vörn Malmö sem átti á brattann að sækja gegn stjörnum prýddu liði Paris SG. Ángel Di Maria sem yfirgaf Manchester United með skottið á milli lappanna skoraði fyrsta mark riðlakeppninnar en hann skoraði strax á 4. mínútu leiksins og það var síðan Úrúgvæinn Edison Cavani sem innsiglaði sigur Frakklandsmeistaranna.

Verðskuldað hjá PSV

Þetta var ekki gott fyrir Manchester-liðin, United og City. Manchester United sótti hollensku meistarana í PSV heim til Eindhoven og beið þar lægri hlut, 2::1, eftir að Memphis Depay hafði náð forystunni þegar hann skoraði gegn sínu gamla liði. United náði ekki að fylgja þessu eftir og PSV vann verðskuldaðan sigur en þeir Hector Moreno og Luciano Narsingh tryggðu hollenska liðinu sigurinn. United varð fyrir miklu áfalli í fyrri hálfleiknum þegar vinstri bakvörðurinn Luke Shaw varð fyrir hræðilegum meiðslum en hann er að öllum líkindum fótbrotinn og spilar ekki fótbolta næstu mánuðina.

„Við vorum ekki nógu beittir á síðasta þriðjungi vallarins. PSV skoraði úr sínu eina færi í fyrri hálfleik og þeir refsuðu okkur með skyndisóknum. Þetta voru mikil vonbrigði en við lærum vonandi af þessu,“ sagði Chris Smalling sem var fyrirliði United í fjarveru Wayne Rooney.

Manchester City heldur áfram að ströggla í Meistaradeildinni en City, sem hefur farið á kostum í ensku úrvalsdeildinni, tapaði fyrir Ítalíumeisturum Juventus á heimavelli, 2:1. City komst yfir með sjálfsmarki frá Giorgio Chiellini en þeir Mario Mandzukic og Alvaro Morata tryggðu Juventus sigurinn. Úrslitin voru mikil vonbrigði fyrir Manuel Pellegrini og lærisveina hans í City sem vilja svo sannarlega gera atlögu að Evrópumeistaratitlinum. Þetta var fyrsti sigur Juventus á Englandi í 11 leikjum eða frá því liðið lagði Manchester United árið 1996.

Mikil vonbrigði

„Þetta voru mikil vonbrigði en mér fannst við ekki verðskulda að tapa. Við fengum fleiri færi og spiluðum betur heldur en Juventus. Þetta var dæmigerður Evrópuleikur en Juventus skoraði tvö glæsileg mörk,“ sagði Pellegrini eftir leikinn.

Cristiano Ronaldo er á eldi þessa dagana. Portúgalinn magnaði skoraði fimm mörk fyrir Real Madrid í spænsku deildinni um síðustu helgi og hann mætti til leiks á markaskónum í gær þegar Madridarliðið burstaði Shahktar Donetsk, 4:0, eftir að hafa leikið manni fleiri síðustu 40 mínútur leiksins. Eftir að Karim Benzema opnaði markareikninginn fyrir Real Madrid var komið að Ronaldo sem skoraði þrennu og komu tvö fyrstu mörk hans af vítapunktinum. Ronaldo hefur þar með skorað 80 mörk í Meistaradeildinni og er sá markahæsti og hann vantar nú aðeins fimm mörk til að jafna Raúl sem markhæsti leikmaður í sögu Real Madrid. Það eina sem skyggði á sigur Real Madrid var það að Walesverjinn Gareth Bale tognaði í fyrri hálfleik og ljóst er hann verður frá keppni í einhvern tíma.

Spænsku liðin fóru vel af stað en auk Real Madrid fögnuðu bæði Atlético Madrid og Sevilla sigrum. Atlético gerði góða ferð til Tyrklands þar sem liðið vann 2:0 sigur gegn Galatasaray þar sem Frakkinn Antoine Griezmann skoraði bæði mörkin.

Sevilla átti ekki í vandræðum með að vinna Borussia Mönchengladbach, 3:0. Sevilla fékk þrjár vítapyrnur í leiknum en náði ekki að nýta eina þeirra. Kevin Gameiro, Ever Banega og Jevheniy Konoplyanka settu mörkin fyrir Sevilla.