Gunnlaugur Kristjánsson fæddist á Akureyri 14. janúar 1956. Hann lést 2. september 2015. Útför Gunnlaugs fór fram 11. september 2015.

Elsku Gulli.

Það verður tómlegt í Skipholtinu án þín. Enginn sem rífur upp útidyrahurðina og kallar „Allúú!“ þegar hann kemur heim, enginn sem sefur yfir enska boltanum með hljóðið aðeins of hátt stillt, enginn sem hringir í mig fyrir jólin til að spyrja hvað sé hægt að gefa mömmu í jólagjöf. Það verður heldur enginn hryggur í matinn með góðu sósunni þinni og enginn sem sönglar „trallala“ yfir pottunum eins og þú gerðir alltaf þegar þú varst í sérstaklega góðu skapi. Þú varst svo mikill meistarakokkur, Gulli. Veislumatur í hvert mál, ef frá er talin reykta nautatungan sem þú fékkst þér stundum. Þú ert örugglega eini maðurinn sem myndi kalla hana veislumat. Þér tókst meira að segja að kenna mér að borða lax, eitthvað sem ég held að mamma hafi verið löngu búin að gefast upp á. Það var ekki annað hægt en að borða hann með bestu lyst eftir að þú hafðir veitt hann og matreitt.

Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast þér og eiga þig fyrir stjúppabba, elsku Gulli. Þú tókst mér alveg eins og þínu eigin barni og mínum börnum eins og eigin barnabörnum. Þú hélst mikið upp á Helgu Völu, sem fannst ekkert skemmtilegra en að koma í næturgistingu hjá ömmu Helgu Sigrúnu og afa Gulla þar sem mátti vaka fram eftir og borða ótakmarkaðan fjölda ísa. Það er sorglegt til þess að hugsa að Dagur og Lóa Björk fái ekki að kynnast þér á sama hátt og vaka fram eftir með ís númer þrjú það kvöldið.

Við eigum eftir að sakna þín, elsku Gulli. Vonandi geturðu veitt lax allan sólarhringinn þarna hinum megin. Þá veit ég að þú ert sáttur.

Íris.

Vinur minn Gunnlaugur Kristjánsson lést miðvikudaginn 2. september eftir illvíg veikindi.

Ég kynntist Gulla fyrst þegar við vorum 15-16 ára gaurar, í Héraðsskólanum Reykholti.

Leiðir okkar lágu saman eftir þetta bæði í skólakerfinu og í vinnu.

Ég hitti Gulla aftur í Menntaskólanum á Akureyri og síðan lásum við byggingartæknifræði samtímis við Tækniskóla Íslands.

Að fá að kynnast Gulla og vinna með honum voru mikil forréttindi. Í náminu unnum við mjög mikið saman, bæði í verkefnum og í lestri fyrir próf. Gulli var snöggur að greina kjarnann frá hisminu og gengu því öll verk sem hann kom nálægt bæði hratt og örugglega. Vandamál voru ekki til í orðaforða Gulla, þetta voru bara verkefni sem þurfti að skilgreina og leysa.

Við unnum líka saman í byggingarvinnu á Hornafirði á námsárunum og seinna meir við hönnun og framkvæmdir.

Þótt við hefðum líka farið í ólíkar áttir átti ég alltaf vin þar sem Gulli var. Það skipti ekki máli hvort við hefðum ekki hist í ár eða tvö, alltaf þegar við hittumst var eins og við hefðum hist í gær.

Þeir eru ríkir sem eiga góða vini og ég var forríkur að eiga góðan vin, sem Gulli var, og ég veit að ég verð áfram ríkur af minningunni um góðan vin.

Megi minning þín, elsku vinur, lifa í hjörtum okkar.

Elsku Helga Sigrún, Logi og aðrir aðstandendur. Við Elín sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Jón Guðmundsson.