Skúli Pálsson, heimspekingur, kennari og hagyrðingur, auglýsir á Boðnarmiði ljóðabók sem hann er með í smíðum: „Vísur fyrir þig sem ert í góðu skapi og líka fyrir þig sem ert dapur. Vísur fyrir þau sem eru ástfangin og hin sem eru í ástarsorg.

Skúli Pálsson, heimspekingur, kennari og hagyrðingur, auglýsir á Boðnarmiði ljóðabók sem hann er með í smíðum: „Vísur fyrir þig sem ert í góðu skapi og líka fyrir þig sem ert dapur. Vísur fyrir þau sem eru ástfangin og hin sem eru í ástarsorg. Þær hafa orðið til af mismunandi tilefnum en vilja standa allar saman í einni bók. Bók undir áhrifum frá íslenskum rímum og japönskum hækum.“

Hann segist hafa sett sér það verkefni að búa til eina vísu á dag í eitt ár. – „Upphaflega átti það að vera æfing í sjálfsaga og þjálfun í að fara með stuðla og höfuðstafi. Svo vildu vísurnar fara sínar eigin leiðir og sumar vildu raða sér saman í ljóð. Og nú vilja þær standa saman í bók og fá fleiri til að lesa sig,“ segir hann. Bókin á að skiptast í fjóra kafla eftir árstíðunum – „stundum eru ljóðin léttúðug, stundum reyna þau að horfa inn í kjarna tilverunnar“.

Æviskeið

Litlu krakkakrílin fá

kunna orð að mæla,

angur sitt og óskir tjá

einatt með að skæla.

Táningarnir tjútta og

af tómri kæti hoppa,

viðstöðulaus vöðvaflog

vonlaust er að stoppa.

Þó að lengi þetta sker

þjaki vondsleg kreppa

allra sinna ferða fer

fullorðinn á jeppa.

Þegar er í lífsins lind

löggin næstum búin

öldungur með göngugrind

gaufar áfram lúinn.

Sumarvísa

Í dag er alveg brjáluð blíða,

börnin úti skoppa víða,

lifnar óðum lauf á trjánum,

leik ég mér og veifa tánum.

Kynningarvísa

Skúli Pálsson skáldið er,

skemmtilega yrkir,

yður býður kvæðakver,

Karólína styrkir.

Þetta verður vafalaust áhugaverð bók og skemmtilegt nýnæmi, að bókin er boðin með mismunandi kjörum eftir því hvort hún er árituð eða frumort vísa eða ljóð fylgir.

Í Hugsvinnsmálum segir:

Mikið vatn

gerir mörgum skaða,

þótt falli eigi straumar strítt;

svo er seggur

slægur og langþögull,

þörf er við þeim að sjá.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is