Meðal gesta á Bókmenntahátíð í Reykjavík sem lauk um helgina var íraski rithöfundurinn Hassan Blasim, höfundur bókarinnar Þúsund og einn hnífur, sem flúði fótgangandi frá Írak fyrir fimmtán árum og hélt fótgangandi til Finnlands þar sem hann býr í dag.

Meðal gesta á Bókmenntahátíð í Reykjavík sem lauk um helgina var íraski rithöfundurinn Hassan Blasim, höfundur bókarinnar Þúsund og einn hnífur, sem flúði fótgangandi frá Írak fyrir fimmtán árum og hélt fótgangandi til Finnlands þar sem hann býr í dag.

Í pallborði sem Sjón stýrði þar sem Blasim sat með nígerísk-bandaríska rithöfundinum Teju Cole ræddu þeir um hvernig það er að eiga hvergi heima og allstaðar, enda báðir menn tveggja ólíkra heima, Blasim sem Íraki sem býr í Finnlandi og Cole sem er að jöfnu Nígeríumaður og Bandaríkjamaður eins og hann lýsti því sjálfur.

Væntanlega kemur það ekki á óvart að talið hafi borist að flóttamönnum, enda er fátt mönnum eins ofarlega í huga um þessar mundir af augljósum ástæðum.

Blasim lýsti ferðalagi sínu frá Bagdad til Helsinki fyrir mér skömmu áður en hann hélt aftur til Finnlands og þá af sömu lífsgleði og geislaði af honum, enda fannst honum fáránlegt að vera dapur, hann væri lifandi í dag og hverju skipti þó hann hefði einhverntímann næstum verið dauður.

Heimili hans í Bagdad breyttist í hákarlskjaft þegar hann gagnrýndi Saddam Hussein og þegar hann síðan gerði kvikmynd í Kúrdahéröðum Íraks neyddist hann til að flýja til að halda lífi.

Það tók hann fjögur ár að ganga frá Bagdad til Helsinki og á leiðinni þurfti hann að gera ýmislegt til að lifa af, sofa á víðavangi, betla og éta upp úr ruslatunnum, aukinheldur sem hann vann þau viðvik sem gáfust til að framfleyta sér.

„Vesturlandabúar geta flogið um allan heim, þeir geta flogið til Afríku til að drepa dýr og til Austurlanda fjær til að kaupa kynlífsþjónustu og til Miðausturlanda til að kaupa fornminjar og til Suður-Ameríku að kaupa eiturlyf en við getum ekkert farið nema með því að lauma okkur úr landi. Bandarískur hermaður þarf ekkert vegabréf til að fara til Íraks að drepa fólk, en ég hafði ekkert vegabréf til þess að komast frá Írak og því þurfti ég að fara fótgangandi yfir fjöllin til Írans og þaðan sem leið lá til Tyrklands og svo norður á bóginn.“

Í spjalli þeirra Blasims og Teju Cole vitnaði Cole meðal annars í kenýsk-sómalska skáldið Warsan Shire sem orti sem svo:

„Það yfirgefur enginn heimili sitt nema / heimilið sé hákarlskjaftur.“

Með þeirri tilvitnun benti Cole á að fólk yfirgefur ekki heimili sitt, eigur sínar og ættingja með ekkert nema það sem kemst í einn bakpoka nema það sé til þess neytt. Það má og lesa í ljóðinu og líka það að það velur enginn sér niðurlægingu sem verra sér framundan: „Þú verður að skilja, / það setur enginn börnin sín um borð í bát / nema vatnið sé öruggara en landið.“ arnim@mbl.is

Árni Matthíasson