Tekið upp Henda þarf frá öllum kögglum og ónýtum kartöflum sem vélin krafsar upp úr jörðinni.
Tekið upp Henda þarf frá öllum kögglum og ónýtum kartöflum sem vélin krafsar upp úr jörðinni. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Við höfum verið að bíða með upptöku. Kartöflurnar hafa ekki verið nógu stórar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Við höfum verið að bíða með upptöku. Kartöflurnar hafa ekki verið nógu stórar. Nú erum við komnir í eindaga með þetta, það getur komið bleyta og frost þegar komið er fram í miðjan september,“ segir Guðmundur Harðarson, kartöflubóndi í Önnuparti í Þykkvabæ. Hann var úti í kartöflugörðum með sínu fólki við uppskerustörf.

Vegna kulda og óhagstæðs tíðarfars í vor gekk illa að setja niður kartöflur. Við tók kaldur júnímánuður. Kartöflubændur hafa því reynt að seinka uppskerustörfum, eins og Guðmundur bendir á, til að reyna að lengja vaxtartímann í seinni endann og fá stærri kartöflur. Nú er ekki þorandi að bíða lengur og í gær voru upptökuvélar á fullu í öllum görðum í nágrenni sveitaþorpsins Þykkvabæjar og tvær vélar hjá sumum. Það tekur gjarnan mánuð að taka upp úr görðunum og vont að það dragist mikið fram í október. Bændur sem rætt var við vonuðust til að fá gott veður til uppskerustarfa, það gæti ráðið miklu um afrakstur sumarsins.

Öll uppskeran selst

Einar Hafsteinsson, kartöflubóndi í Hábæ, taldi að uppskeran yrði ekki verri en í fyrrahaust en þá náðist ekki að taka upp úr öllum görðum vegna bleytu.

„Ef við náum öllu upp verður uppskeran í meðallagi, ekki meira en það,“ segir Guðmundur í Önnuparti. Hann tekur fram að þeir séu það skammt á veg komnir að erfitt sé að fullyrða um uppskeruna. Nefnir að ef mikið smælki verði með ódrýgist uppskeran mjög.

Kartöflubændum hefur fækkað mjög í Þykkvabænum en þeir sem eftir eru hafa verið að stækka við sig. Það segir Guðmundur að sé nauðsynlegt til að fjölskylda geti haft lifibrauð af rekstrinum. Algengast er að menn séu með 25-40 hektara undir. „En það þyrftu helst öll ár að vera yfir meðallagi. Það bjargar okkur í dag að öll uppskeran selst. Líka þegar það koma góð ár. Það hefur dregið það mikið úr framleiðslunni,“ segir Guðmundur. Hann segir að verðið hafi heldur lagast síðustu ár þótt það mætti alveg vera hærra.

„Verðið til bænda er allt of lágt, kaupmennirnir hirða of stóran hlut. Mér finnst það ekki ná nokkurri átt að verslunin skuli taka helming af verðinu sem neytendur greiða fyrir kartöflurnar,“ segir Hafsteinn Einarsson, fyrrverandi kartöflubóndi í Sigtúni.

Áframhaldandi vinna

Flestir bændurnir í Þykkvabæ leggja hluta uppskerunnar inn í Kartöfluverksmiðju Þykkvabæjar en selja hluta uppskerunnar á markað í gegn um Sölufélag garðyrkjumanna eða beint í verslanir.

Þótt upptakan sé ásamt niðursetningu mikilvægasti tími ársins hjá kartöflubændum er nóg að gera þess á milli. Þegar erfiðri törn á haustin er lokið þarf að taka til hendinni við að þvo kartöflur, flokka og pakka og koma á markað. Sú vinnan stendur allan veturinn, eða þar til uppskeran er uppurin.