Reynd Sólveig Lára Kjærnested var í liði Stjörnunnar sem varð meistari frá 2007 til 2009 og er einn af reyndustu leikmönnum Garðabæjarliðsins.
Reynd Sólveig Lára Kjærnested var í liði Stjörnunnar sem varð meistari frá 2007 til 2009 og er einn af reyndustu leikmönnum Garðabæjarliðsins. — Morgunblaðið/Golli
Sú besta Kristján Jónsson kris@mbl.is Sólveig Lára Kjærnested skoraði 12 mörk þegar Stjarnan vann góðan sigur á efnilegu liði Fylkis 30:22 í 1. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta. Fyrir vikið er hún leikmaður umferðarinnar í Morgunblaðinu.

Sú besta

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Sólveig Lára Kjærnested skoraði 12 mörk þegar Stjarnan vann góðan sigur á efnilegu liði Fylkis 30:22 í 1. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta. Fyrir vikið er hún leikmaður umferðarinnar í Morgunblaðinu.

Sólveig verður þrítug í haust og hefur langa reynslu af efstu deild. Hún var í sigursælu liði Stjörnunnar sem varð Íslandsmeistari þrjú ár í röð frá 2007-2009. Á síðasta tímabili skoraði hún 89 mörk í 19 leikjum í Olís-deildinni og var markahæsti leikmaður Stjörnunnar þótt hún hefði misst af þremur leikjum.

Þá hefur Sólveig oft spilað með landsliði Íslands, en hún á samtals að baki 58 landsleiki og hefur skorað í þeim 103 mörk.

Verður töluvert í skyttunni

„Solla er reyndur leikmaður. Hún er ein af fáum sem eftir eru sem voru stór hluti af þessu liði. Hún hefur farið í gegnum margt í boltanum. Unnið marga titla og verið í landsliðinu. Hún veit hvað hún syngur,“ sagði Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, þegar Morgunblaðið ræddi við hann um Sólveigu. Hún hefur mest spilað í hægra horninu á sínum ferli en þó af og til verið í skyttustöðunni. Halldór sér fyrir sér að hún muni leysa hvort tveggja í vetur.

„Við erum sammála um að hún getur spilað hvora stöðuna sem er. Framan af mótinu er hún hins vegar hugsuð meira sem skytta. Við erum með góða leikmenn í kringum hana eins og Kolbrúnu Gígju og Hönnu Stefáns, því er meira hægt að nota Sollu í skyttunni. Kannski er það annað hlutverk en hún hefur oft haft hjá Stjörnunni en í þessari stöðu er hún meira í boltanum. Þar með er hún með stærra hlutverk í sóknarleiknum hjá okkur,“ sagði Halldór ennfremur.

Dregur vagninn

Þegar hann er beðinn að lýsa Sólveigu sem leikmanni segir Halldór hana vera metnaðargjarna.

„Hún er mjög ákveðin og áræðin. Þá er hún metnaðargjörn og mjög flottur persónuleiki í hóp. Sem einn af eldri leikmönnum liðsins er hún ein þeirra sem draga vagninn. Er flott stelpa eins og margar í mínu liði,“ útskýrði Halldór Harri Kristjánsson í samtali við Morgunblaðið en hann tók við Stjörnuliðinu í sumar.