Sterkur Janus Daði Smárason lék stórt hlutverk hjá Haukum þegar liðið varð Íslandsmeistari í vor. Hér er hann í slag við leikmenn Víkings á dögunum.
Sterkur Janus Daði Smárason lék stórt hlutverk hjá Haukum þegar liðið varð Íslandsmeistari í vor. Hér er hann í slag við leikmenn Víkings á dögunum. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Karladeildin Ívar Benediktsson iben@mbl.is Annað árið í röð leika tíu lið í Olís-deild karla eftir að ákvörðun var tekin á ársþingi HSÍ fyrir hálfu þriðja ári um að fjölga liðum í deildinni um tvö.

Karladeildin

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Annað árið í röð leika tíu lið í Olís-deild karla eftir að ákvörðun var tekin á ársþingi HSÍ fyrir hálfu þriðja ári um að fjölga liðum í deildinni um tvö. Við þessa viðbót fjölgaði leikjum deildarinnar úr 84 keppnistímabilið 2013-2014 yfir í 135 leiktíðina á eftir. Þar að auki fjölgaði leikjum verulega í úrslitakeppninni þar sem átta liða úrslitakeppni var ákveðin í tíu liða deild í stað fjögurra liða úrslitakeppni í átta lið deild.

Þessi mikli leikjafjöldi á síðasta keppnistímabili reyndi mjög á leikmenn deildarinnar. Það var ein meginástæða þess að samþykkt var á ársþingi HSÍ í vor að lengja keppnistímabilið um tvær vikur. Íslandsmótið hófst þar af leiðandi viku fyrr en í fyrra og lýkur viku seinna en í ár. Gárungar segja reyndar að lenging mótsins næsta vor hafi ekki síst verið ákveðin til þess að lokahóf HSÍ bæri ekki upp á sömu helgi og söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem hefði orðið raunin ef ekki hefði verið tekin ákvörðun um lengingu.

Átján umferðir til jóla

Alls verða leiknar 18 umferðir af 27 áður en hlé verður 19. desember vegna þátttöku íslenska landsliðsins á Evrópumeistaramótinu sem haldið verður í Póllandi í janúar. Þráðurinn verður tekinn upp á ný í Olís-deildinni 4. febrúar. Hlé af þessum toga eru árviss vegna nær undantekningarlausrar þátttöku íslenska landsliðsins á stórmótum sem haldin eru árlega í janúar. Deildarkeppninni lýkur um mánaðamótin mars-apríl eins og undanfarin ár. Eftir stutt hlé tekur við úrslitakeppnin sem stendur fram yfir miðjan maí. Þá reyna efstu átta liðin með sér í úrsláttarkeppni um Íslandsmeistaratitilinn en tvö þau neðstu falla í 1. deild. Stjarnan og HK urðu að sætta sig við að færast niður um deild á liðnu vori. Sæti þeirra tóku Grótta sem sigurlið 1. deildar og Víkingur eftir æsilegt úrslitaeinvígi við Fjölni.

Valur missti flugið

Valur varð deildarmeistari á síðasta keppnistímabili. Meistaratitilinn var verðskuldaður þar sem Valsmenn voru jafnbestir eins og niðurstaðn gaf til kynna. Þegar að úrslitakeppninni kom misstu þeir hins vegar flugið og áttu enga möguleika gegn Haukum í undanúrslitum.

Afturelding kom liða helst á óvart í fyrra. Nýliðarnir byrjuðu deildarkeppnina með talsverðum látum undir stjórn Einars Andra Einarssonar og skemmtilegum hópi ungra handknattleiksmanna sem flestir voru uppaldir innan félagsins.

ÍR hafnaði í þriðja sæti eftir að hafa átt betri endasprett en FH-ingar en liðin höfðu háð kapphlaup um þriðja sætið.

Haukar náðu fimmta sætið. Lengi vel virtust þeir ekki líklegir til stórræða eftir að hafa orðið deildarmeistarar árið áður og í kjölfarið tapað naumlega fyrir ÍBV í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Haukar sóttu í sig veðrið eftir HM-hléið í janúar og voru síðan á toppnum á réttum tíma.

Akureyringar áttu í basli allan veturinn og skiptu m.a. um þjálfara þegar á leið. Atli Hilmarsson tók við liðinu tímabundið og náði að hressa upp á gengi þess svo það nægði til sjötta sætis.

Íslandsmeistarar ÍBV árið 2014 náðu sér aldrei á strik í deildinni á síðasta ári. Þeir gerðu það gott í bikarkeppninni en árangurinn í deildarkeppninni var vonbrigði. Mannabreytingar, meiðsli og ákveðið spennufall eftir ævintýralegan árangur vorið 2014 höfðu vafalaust áhrif á liðið sem féll út í tveimur leikjum fyrir Aftureldingu í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Kapphlaup um að forðast fall

Fram tókst á ævintýralegan hátt að halda sér uppi eftir erfiðan vetur. Meiðsli settu stórt strik í reikninginn og lengi vel blés ekki byrlega við söfnun stiga. En liðið gat spilað almennilega og hékk uppi á því þegar upp var staðið. Fram lauk keppni með sama stigafjölda og Stjörnumenn sem máttu bíta í það súra epli að falla niður í 1. deild eftir eins árs dvöl. Örlög HK voru hins vegar löngu ráðin og segja má að eftir að liðið slapp við fall vorið 2014 vegna fjölgunar í Olís-deildinni hafi það hjakkað í sama farinu í fyrra og hafði aldrei uppi sérstaka burði til þess að forðast fallið.

Nú er hins vegar hafin ný keppni. Sæti Stjörnunnar og HK hafa tekið Grótta og Víkingur, sem leikur nú í deild þeirra bestu í fyrsta sinn síðan vorið 2009. Skemmra er síðan Grótta átti lið í efstu deild karla en Seltirningar voru síðast með í deildinni leiktíðina 2011-2012.