Bonnie Fyrirlítur líkama sinn.
Bonnie Fyrirlítur líkama sinn.
Bonnie og de tusind mænd eða Bonnie og mennirnir þúsund nefnist ný dönsk heimildarmynd í leikstjórn Mette Korsgaard sem frumsýnd var á DR1 sl. sunnudag og hefur vakið mikil viðbrögð þar í landi.
Bonnie og de tusind mænd eða Bonnie og mennirnir þúsund nefnist ný dönsk heimildarmynd í leikstjórn Mette Korsgaard sem frumsýnd var á DR1 sl. sunnudag og hefur vakið mikil viðbrögð þar í landi.

Í myndinni er vændiskonunni Bonnie fylgt eftir um tveggja ára skeið. Bonnie er 38 ára gömul, þriggja barna móðir, sem selt hefur karlmönnum aðgang að líkama sínum sl. 20 ár. Framan af myndinni ber hún sig tiltölulega vel og segist ánægð að geta fullnægt öllum þeim mönnum sem til hennar leita, sem skipta þúsundum. Fljótlega verður þó ljóst að Bonnie líður ekki vel enda fyrirlítur hún eigin líkama og þjáist af alvarlegri átröskun sem er hægt og rólega að leggja hana í gröfina.

En þótt Bonnie gangi um eins og lifandi beinagrind með risavaxin sílikonbrjóst hefur hún nóg að gera. Sjálfa dreymir hana hins vegar um að komast út úr vændinu og fara í staðinn að reka pylsuvagn í bænum þar sem hún býr. „Mig langar svo að vinna við eitthvað þar sem ég er fullklædd, því mennirnir líta ekki á mig sem mennska þegar ég er nakin,“ segir hún m.a. á einum stað. Leikstjórinn veitir áhorfendum einstaka sýn inn í raunveruleika vændiskonu. Myndin verður aðgengileg á vef dr.dk. til 13. október nk.

Silja Björk Huldudóttir