[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem nú liggur fyrir Alþingi, gerir ráð fyrir því að ríkissjóður muni hafa 8 milljarða tekjur af eignarhlutum sínum í viðskiptabönkunum þremur á næsta ári.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem nú liggur fyrir Alþingi, gerir ráð fyrir því að ríkissjóður muni hafa 8 milljarða tekjur af eignarhlutum sínum í viðskiptabönkunum þremur á næsta ári. Í dag á ríkið 97,7% hlutafjár í Landsbankanum, 5% í Íslandsbanka og 13% í Arion banka. Höfundar frumvarpsins ganga því út frá því að arður ríkisins af eignarhlutum þess í bönkunum muni dragast saman um tæp 70% frá yfirstandandi ári þar sem ríkið fær 23,5 milljarða frá Landsbanka, 450 milljónir frá Íslandsbanka og 1,7 milljarða frá Arion banka.

Vanmat síðustu ára

Fimm ár liðu frá endurreisn bankanna í árslok 2008 þar til Landsbankinn og Íslandsbanki tóku að greiða arð til hluthafa sinna. Ári síðar bættist Arion banki í hópinn. Árið 2013 greiddi Íslandsbanki tæp 13% af hagnaði fyrra árs í arð. Í fyrra hækkaði það hlutfall í 17,4% þrátt fyrir meiri hagnað. Nú í ár fór hlutfallið hins vegar upp í tæp 40%. Í tilfelli Landsbankans voru tæp 40% af hagnaði fyrra árs greidd í arð á árinu 2013. Í fyrra fór hlutfallið í rúm 70% og á aðalfundi fyrr á þessu ári var ákveðið að greiða rúm 79% af hagnaði ársins 2014 út í formi arðgreiðslu.

Á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað hefur Fjármálaráðuneytið gert ráð fyrir mun lægri arðgreiðslum úr bönkunum. Þannig gerði ráðuneytið ráð fyrir 8,1 milljarðs tekjum af bönkunum árið 2014 en raunin varð sú að þær námu tæpum 21 milljarði. Svipað vanmat átti sér stað í fjárlögum 2015 en þá var gert ráð fyrir 7,7 milljarða arðgreiðslum frá bönkunum þremur en niðurstaðan varð, eins og áður sagði, að ríkið fékk 25,6 milljarða í tekjur af eignarhlutum sínum.

Inntur eftir því hvað valdi vanmati fjárlaga undanfarinna ára segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar sem fer með eignarhlut ríkisins í bönkunum, að það eigi sér eðlilegar skýringar.

„Ráðuneytið kallar á hverjum tíma eftir áætlun okkar um arðgreiðslur bankanna. Við mat okkar á þeim göngum við út frá því að bankarnir skili að jafnaði 8% arðsemi á eigin fé og að þeir greiði 40% hagnaðar út í formi arðs. Það má vissulega deila um þessa nálgun en til lengri tíma litið teljum við hana fara nærri því sem búast megi við af reglulegri starfsemi bankanna. Við höfum litið til raun-arðgreiðslna bankanna umfram þessar áætlanir sem sérstakar arðgreiðslur í samræmi við áherslur okkar um að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af hlutafjárframlagi til bankanna.“

Óbreytt arðgreiðslustefna

Samanlagður hagnaður bankanna á fyrstu sex mánuðum þessa árs er nokkru lægri en yfir sama tímabil í fyrra. Nemur hann þó tæpum 43 milljörðum króna. Sé mið tekið af því hlutfalli sem bankarnir greiddu af hagnaði sínum í formi arðs í fyrra og eignarhlutdeild ríkisins í þeim, gæti arður ríkisins af rekstri fyrstu sex mánaða þessa árs því numið um 11 milljörðum króna en það er rúmum 3 milljörðum meira en gert er ráð fyrir að bankarnir skili ríkinu fyrir allt árið 2015. Verði hagnaður þeirra á síðari hluta ársins í takti við fyrri hluta þess, gætu arðgreiðslurnar því reynst 14 milljörðum hærri en áætlanir fjárlagafrumvarpsins gera ráð fyrir en þær ganga út frá því að afgangur af rekstri ríkissjóðs muni nema 15,3 milljörðum. Að öðru óbreyttu gætu arðgreiðslur frá bönkunum aukið við afganginn sem nemur um 91,5%.

Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, segir að almennt sé það frekar kostur en hitt að tekjuáætlanir fjárlagafrumvarpsins séu varfærnar. Hins vegar segir hann að þær þurfi að sýna raunhæft mat á stöðu mála á hverjum tíma.

„Af þessum tölum má vera ljóst að í fjárlagafrumvörpum undanfarinna ára hafa arðgreiðslur bankanna verið vanmetnar. Fjárlagafrumvarpið er einskonar spá fyrir næsta ár og ef spárnar bregðast oft í röð kann að vera ástæða til að endurskoða þær aðferðir sem beitt er við gerð þeirra. Það er nauðsynlegt að þær varpi raunhæfu ljósi á stöðu mála og þó það sé ágætt að spár séu ekki of bjartsýnar þá mega þær heldur ekki vera svo svartsýnar að þær séu augljóslega rangar,“ segir Gylfi.