Vel ern Gunnar Rögnvaldsson leikur á munnhörpu sína í gær. Mynd af Kristínu eiginkonu hans á borðinu, bærinn Dæli á málverkinu á veggnum.
Vel ern Gunnar Rögnvaldsson leikur á munnhörpu sína í gær. Mynd af Kristínu eiginkonu hans á borðinu, bærinn Dæli á málverkinu á veggnum. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Aldarafmæli Gunnars Rögnvaldssonar, fv. bónda í Skíðadal, verður fagnað á dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík í dag. Augljóst var í gær, þegar Morgunblaðið kíkti í heimsókn, að Gunnar er aðalmaðurinn á staðnum.

Skapti Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Aldarafmæli Gunnars Rögnvaldssonar, fv. bónda í Skíðadal, verður fagnað á dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík í dag. Augljóst var í gær, þegar Morgunblaðið kíkti í heimsókn, að Gunnar er aðalmaðurinn á staðnum. Kemur kóngurinn, sögðu „stelpurnar“ og brostu sínu blíðasta þegar afmælisbarn dagsins í dag kom fram í kaffi.

Gunnar stundaði búskap í sjö áratugi. Fyrst fimm ár með bróður sínum á Hnjúki en tók síðan við af foreldrum sínum á Dæli þar sem Óskar sonur hans býr nú.

Langlífi er í ættinni. Amma Gunnars varð 98 ára, Lilja systir hans 97, Árni bróðir hans 95 og systirin Þórdís varð 94 ára. Systkinin voru 11, sjö bræður og fjórar systur.

Gunnar er býsna hress. Sér mjög vel og segist lesa gleraugnalaus. Kveðst reyndar nærri hafa misst sjón fyrir mörgum árum en fengið bót meinsins eftir aðgerð í Reykjavík og sjónin hafi ekki breyst síðan. Hann er líka með gerviliði í báðum mjöðmum en fer út í göngutúr flesta daga, þegar veðrið er sæmilegt. „Það heldur mér við, að ganga í hálftíma eða klukkutíma. Ég geng við göngugrind því það er öruggara; ég er orðinn dálítið valtur á fótunum,“ sagði hann í gær. Sleppti reyndar göngutúrnum þá. „Það er algjört skítaveður,“ sagði hann, sem voru orð að sönnu, dró fram munnhörpuna í staðinn og lék fyrir aðra íbúa og starfsmenn.

„Ég lék á munnhörpu sem strákur. Afabörnin fréttu af því og gáfu mér hana þessa. Ég leik stundum á hana en allt of sjaldan. Á ekki gott með að blása of mikið, mæðist fljótt því lungun í mér eru orðin léleg.“

Ekki eru nema um það bil tvö ár síðan Gunnar hætti að keyra bíl. „Þeir endurnýjuðu alltaf [ökuskírteinið] fyrir mig enda var ég með góða sjón, hafði ekki valdið neinu tjóni og var víst með frítt sakavottorð,“ segir hann og hlær. Hann naut þess að fara heim í sveitina og þau hjónin óku oft þangað enda ekki nema 15 km leið frá Dalvík. „Mér finnst yndislegt að fara út á kvöldin og hlusta á þögnina þegar allt er hljóðnað og fuglinn hættur að syngja. Ég er mikið náttúrubarn og kann best við mig einn einhvers staðar úti í náttúrnni. Þá er ég næstur guði mínum, segi ég.“

Kristín, eiginkona Gunnars í sjö áratugi, lést 29. ágúst síðastliðinn.