Háskólabíó Formenn félaganna sem boðuðu til baráttufundarins fluttu ávörp. Þau sitja fremst á myndinni. F.v. Árni St. Jónsson, formaður SFR, Snorri Magnússon, formaður LL og Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður SLFÍ.
Háskólabíó Formenn félaganna sem boðuðu til baráttufundarins fluttu ávörp. Þau sitja fremst á myndinni. F.v. Árni St. Jónsson, formaður SFR, Snorri Magnússon, formaður LL og Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður SLFÍ. — Morgunblaðið/Eggert
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Fjölmennur baráttufundur SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélags Íslands (SLFÍ) og Landssambands lögreglumanna (LL) var haldinn síðdegis í gær í Háskólabíói. Bein útsending var frá fundinum á netinu.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Fjölmennur baráttufundur SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélags Íslands (SLFÍ) og Landssambands lögreglumanna (LL) var haldinn síðdegis í gær í Háskólabíói. Bein útsending var frá fundinum á netinu.

Flutt voru ávörp og tónlist. Fundurinn samþykkti einróma ályktun þar sem þess var m.a. krafist að ríkisstjórnin „taki raunhæf skref í átt að lausn á kjaradeilu SFR, SLFÍ og LL við ríkið. Staðan er grafalvarleg. Ef ekkert verður að gert stefnir í að fleiri þúsund starfsmenn innan almannaþjónustunnar fari í aðgerðir með tilheyrandi áhrifum og álagi á samfélagið allt“.

Í ályktuninni kváðust félögin hafa lagt fram sanngjarnar, raunhæfar og skýrar kröfur. „Þær byggja á þeim kjarasamningum sem ríkið hefur nú þegar gert við starfsmenn sína og niðurstöðum gerðardóms.“ Hins vegar hafi stjórnvöld sýnt félagsmönnum BSRF „grímulaust virðingarleysi með því að bjóða þeim miklu lakari kjarabætur.“

Þá lýsti fundurinn yfir fullum stuðningi við samninganefndir félaganna í yfirstandandi kjaraviðræðum við ríkið. Jafnframt var því lýst yfir að samningar um eitthvað minna en það sem aðrir hafi fengið yrðu felldir.

Ríkisstarfsmönnum att saman

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður SLFÍ, var mjög gagnrýnin á vinnuveitanda fundarmanna, ríkisstjórn Íslands, í ávarpi sínu. Hún sagði að vinnuveitandinn legði sig fram um að etja saman ríkisstarfsmönnum með því að bjóða þeim mismunandi kjarabætur. Samningar væru gerðir við suma ríkisstarfsmenn á háum nótum, öðrum væri gert að sæta dómum og enn öðrum ætlað „að éta það sem úti frýs“.

Kristín sagði að skoðanakannanir félaganna, SFR og SLFÍ, sýndu að mikill meirihluti félagsmanna væri tilbúinn að standa þétt að baki samninganefndunum. „Sé þörf á aðgerðum þá eru félagsmenn reiðubúnir,“ sagði Kristín. „Við krefjumst sambærilegra launahækkana og ríkið hefur þegar samið um.“

Hvatt til samstöðu allra

Snorri Magnússon, formaður LL, rifjaði upp gang kjarabaráttu lögreglumanna í meira en hálfa öld og allt til dagsins í dag. Hann sagði m.a. að lögreglumenn hefðu farið í verkfall 1984. Í framhaldi af því seldu þeir verkfallsréttinn „fyrir glerperlur“.

Lögreglumenn áttu að fá sanngjarnar launabætur í framhaldinu. Snorri sagði að þau loforð hefðu verið svikin. Hann sagði að árið 2011 hefði þáverandi fjármálaráðherra lofað lögreglumönnum að þeir fengju aftur verkfallsréttinn, en ekki staðið við það.

„Ég á mér þann draum að við höfum þá greind að átta okkur á því að samstaða okkar allra skiptir máli,“ sagði Snorri. „Ég á mér þann draum að við getum sent frá okkur þau sameiginlegu skilaboð héðan að við látum ekki bjóða okkur kjaftæði endalaust. Ég á mér þann draum að við getum sent héðan þau skilaboð til perlusölumannanna að við höfum ekki áhuga á glerperlum sem þeir vilja selja okkur.

Kæru félagar, samstaða er það eina sem dugar til að ná árangri,“ sagði Snorri.

Ekki réttlæti, heldur gerræði

„Ef það er verkfall sem þarf til, þá verður verkfall,“ sagði Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, í ávarpi sínu og uppskar mikið lófaklapp. Hann sagði að félögin sem eru í samfloti í kjarasamningsgerð við ríkið hefðu skoðað hug félagsmanna sinna til aðgerða. Mikill einhugur hefði komið þar fram um að ganga alla leið ef með þyrfti.

„Við höfum einnig framkvæmt spurningakönnun meðal félagsmanna. Þar kom fram 90% stuðningur við aðgerðir,“ sagði Árni. „Með þetta í huga og stemninguna hér í dag er það dagsljóst að við munum setja af stað atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna SFR og Sjúkraliðafélagsins um boðun verkfalls. Verkfalls sem yrði þá framkvæmt að hluta til sem allsherjarverkfall og að hluta til sem tímabundið verkfall. Með því móti fáum við fram bestu möguleg áhrif verkfallsins á sem stystum tíma og með sem minnstum kostnaði.“

Árni var harðorður í garð viðsemjandans, þ.e. ríkisins. „Við eigum að gera okkur að góðu 11-13% lægri kjarasamning en atvinnurekandinn okkar, ríkið, hefur gert við aðra hópa, 11-13% lakari samning en gerðardómur úrskurðaði fyrir aðra,“ sagði Árni. Hann gerði gerðardóminn um kjör háskólamanna hjá ríkinu að umræðuefni. Árni sagði að samningaviðræður ríkisins við BSRB-félögin, sem héldu fundinn í gær, hefðu verið stöðvaðar í sumar á meðan beðið var eftir gerðardómnum sem átti að vera fyrirmynd.

„Nú heitir það hjá samninganefnd ríkisins að gerðardómurinn eigi ekki við um okkur heldur að hann hafi verið svar við neyðarástandi þegar ríkinu tókst ekki að semja við háskólamenntaða starfsmenn sína. Af hverju vorum við þá að bíða eftir því að gerðardómur felldi úrskurð sinn?“ spurði Árni.

Hann spurði hvort eitthvert réttlæti væri í því að félagsmenn þeirra (SFR) á Landspítalanum, hjá tollinum, skattinum og víðar fengju minni kauphækkun en þeir sem vinna við hlið þeirra og hafa nýlega fengið kjarabætur í gegnum samninga eða gerðardóm. „Nei, það er ekkert réttlæti í því. Það er gerræði.“

Árni lauk ávarpinu á hvatningu um samstöðu. Tryggja þyrfti góða útkomu í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðunina. Ef til verkfalls kæmi þyrftu allir að leggja sig fram sem einn maður. „Allt sem til þarf er samstaða,“ sagði Árni. Hann hvatti fundarmenn til að fara af fundinum með bjartsýni í huga og þá von í brjósti að samningar næðust áður en til verkfalla kæmi.