— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Fari Stéttarfélag í almannaþjónustu (SFR) í verkfall mun það hafa mikil áhrif á starfsemi Landspítalans.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Fari Stéttarfélag í almannaþjónustu (SFR) í verkfall mun það hafa mikil áhrif á starfsemi Landspítalans. Yfir eitt þúsund félagsmenn SFR vinna á Landspítalanum og sinna þar ýmsum störfum; svara í símann, sinna öryggisgæslu, stýra ræstingu og eru sérhæfðir starfsmenn á rannsóknarstofum og myndgreiningu, svo eitthvað sé nefnt. Allt skrifstofufólk Landspítalans myndi einnig leggja niður störf, þeirra á meðal eru launafulltrúarnir.

Ríkið hefur skilað undanþágulista fyrir hugsanlegt verkfall en hann byggist á nákvæmri greiningu á því hvað talið er vera nauðsynlegt starf til að uppfylla lagaákvæði um nauðsynlegustu öryggis- og heilbrigðisstörf. Um þennan lista er nú deilt og SFR hefur höfðað mál gegn ríkinu.

Pota inn allskonar störfum

„Ríkið er búið að pota inn störfum sem hafa ekkert með öryggi og heilsu að gera og við erum í málaferlum út af því,“ segir Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri SFR. „Ríkið er að setja inn störf eins og skrifstofustörf, störf umsjónarmanna og tölvuumsjónarmanna og fleiri sem eru ekkert í heilbrigðis- eða öryggisgeiranum, bara til að halda stofnunum gangandi. Okkar svar er nei, þetta eru ekki nauðsynleg störf til að halda spítalanum gangandi. Þær deilur eru nú fyrir dómstólum,“ segir hann.

Enn eitt verkfallið

Ekki má ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli og fari SFR í verkfall myndi það skerða mjög starfsemi spítalans. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er þar verið að huga að undirbúningi fyrir hugsanlegt verkfall, en ekkert verður aðhafst fyrr en fyrir liggur hvort af verkfalli verður.

„Það má ekki leggja niður störf sem eru nauðsynlegustu öryggis- og heilbrigðisstörf til að hlífa lífi og limum þjóðarinnar,“ segir Þórarinn og segir að félagsmenn SFR kalli eftir því að þeir séu líka viðurkenndir með sanngjörnum hætti í launasetningu og fái réttlátar launaleiðréttingar til samræmis við það sem aðrar stéttir innan veggja spítalans hafa fengið.

Ekki sömu 30%

„Þó þessar stéttir myndu fá í prósentuvís sambærilegar hækkanir og njóti þannig sanngirni, þá eru 30% launahækkun hjá lækni sem er með milljón á mánuði, ef við gefum okkur einhverja tölu, ekki sömu 30% og hjá þeim sem er með 300 þúsund á mánuði. Langt í frá. Það sem var samið við ákveðnar stéttir hjá Landspítalanum á sínum tíma, það jafngildir næstum heilum mánaðarlaunum hjá okkar félagsmönnum.

Kröfurnar eru ekki meiri en þetta hjá okkur og það er því óskiljanlegt að ríkisvaldið skuli ekki sjá í hvaða fúafen er verið að draga okkur,“ segir Þórarinn.

451 starf á undanþágu

Á Landspítala eru 1033 starfsmenn í rúmlega 732 stöðugildum í SFR og 580 starfsmenn í rúmlega 411 stöðugildum í Sjúkraliðafélagi Íslands. Myndu verkföll hjá þessum starfsstéttum hafa víðtæk áhrif á alla starfsemi spítalans. Af þessum störfum eru 451 störf á undanþágulista, segir í svari Landspítalans við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilu SFR, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna við ríkið.