Sigrún Magnúsdóttir
Sigrún Magnúsdóttir
„Það er mér metnaðarmál að ný náttúruverndarlög verði afgreidd á Alþingi í haust og taki gildi 15. nóvember,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í samtali við Morgunblaðið í dag í tilefni Dags íslenskrar náttúru.

„Það er mér metnaðarmál að ný náttúruverndarlög verði afgreidd á Alþingi í haust og taki gildi 15. nóvember,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í samtali við Morgunblaðið í dag í tilefni Dags íslenskrar náttúru. Afgreiðslu frumvarpsins var frestað á vorþingi til að tryggja að það fengi fullnægjandi umfjöllun. Annað stórt mál sem væntanlegt er frá ráðherra á næstunni er svokallað innviðafrumvarp sem er landsáætlun um uppbyggingu innviða í þágu náttúruverndar á ferðamannastöðum.

Ráðuneytið undirbýr nú þátttöku Íslands í loftslagsráðstefnunni í París í desember, þar sem afgreiða á nýtt alþjóðasamkomulag um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Sigrún segir að Ísland muni leitast við að ná sameiginlegu markmiði með ríkjum ESB og Noregi um 40% minnkun losunar til 2030.

Fram kemur í samtalinu að ráðherra telur að fé til uppbyggingar og verndar ferðamannastöðum þurfi annars vegar að koma frá ferðaþjónustunni sjálfri og hins vegar með ríkisframlagi sem aflað sé með hóflegum komugjöldum til landsins sem allir ferðamenn greiði. Á Degi íslenskrar náttúru leggur hún áherslu á að allir hafi nýtni og góða umgengni að leiðarljósi í umhverfismálum. 6