Aðeins þrjú af tíu liðum Olís-deildar karla mæta til leiks á þessari leiktíð með annan þjálfara við stjórnvölinn en á síðasta keppnistímabili. Hæst ber án efa þjálfaraskiptin hjá Íslandsmeisturum Hauka.

Aðeins þrjú af tíu liðum Olís-deildar karla mæta til leiks á þessari leiktíð með annan þjálfara við stjórnvölinn en á síðasta keppnistímabili.

Hæst ber án efa þjálfaraskiptin hjá Íslandsmeisturum Hauka. Gunnar Magnússon tók við þjálfun meistaraliðsins af Patreki Jóhannessyni sem ákvað nokkru fyrir lok síðustu leiktíðar að endurnýja ekki samning sinn við Hauka. Forsvarsmenn Hauka voru ekkert að tvínóna í aðgerðum sínum heldur klófestu Gunnar eftir að það spurðist út að hann vildi breyta til eftir tveggja ára veru í Vestmannaeyjum.

Gunnar náði framúrskarandi árangri með ÍBV og stýrði liðinu til sigurs á Íslandsmótinu í fyrsta sinn vorið 2014 og gerði ÍBV að bikarmeisturum í annað sinn í sögunni snemma á þessu ári.

Patrekur ákvað að einbeita sér að þjálfun austurríska karlalandsliðsins og vinn að frekari uppbyggingu yngri landsliða í Austurríki í kjölfarið á viðameiri samningi sem hann skrifaði undir við austurríska handknattleikssambandið fyrir um ári.

Í stað Gunnars réðu Eyjamenn Arnar Pétursson sem þjálfara liðsins. Arnar þekkir vel til liðsins en hann þjálfaði ÍBV árum saman, fyrst með Erlingi Richardssyni og síðan með Gunnari Magnússyni fram til loka leiktíðar 2014. Arnar var þjálfari ÍBV þegar liðið fagnaði sínum fyrsta meistaratitli 2014.

Þriðju og síðustu þjálfaraskiptin voru hjá Akureyri. Landsliðsmaðurinn fyrrverandi Sverre Andreas Jakobsson tók alfarið við þjálfun liðsins eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari á síðustu leiktíð, fyrst með Heimi Erni Árnasyni og síðan með Atla Hilmarssyni. Atli tók tímabundið við þjálfun Akureyrar á síðasta keppnistímabili þegar liðið hafði átt erfitt uppdráttar.

Sverre, sem lagði keppnisskóna á hilluna í vor, þreytir frumraun sína í þjálfun í meistaraflokki, hið minnsta. iben@mbl.is