Fjaðrafok Endur, gæsir og mávar eru meðal fugla sem skoðaðir verða í dag.
Fjaðrafok Endur, gæsir og mávar eru meðal fugla sem skoðaðir verða í dag. — Morgunblaðið/Ómar
Í dag, á Degi íslenskrar náttúru, verður fjölmargt í boði um allt land í tilefni dagsins: Höfuðborgarsvæðið Boðið verður upp á tvær fuglaskoðanir, í Grafarvogi og við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Í dag, á Degi íslenskrar náttúru, verður fjölmargt í boði um allt land í tilefni dagsins:

Höfuðborgarsvæðið

Boðið verður upp á tvær fuglaskoðanir, í Grafarvogi og við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi. Í lestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu verður kynning á endurútgáfu Flóru Íslands, vatnslitamynd Eggerts Péturssonar af 63 tegundum íslenskra háplantna, en hún hefur verið ófáanleg um tíma.

Hátíðarsamkoma verður á Veðurstofu Íslands við Bústaðaveg við afhendingu fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti.

Náttúrufræðistofnun Íslands býður gestum heim á starfsstöð sína í Urriðaholti í Garðabæ þar sem sérfræðingar munu segja frá sumarrannsóknum sínum í máli og myndum.

Kópavogur býður upp á síðsumarsgöngu sem hefst við tjörnina í Kópavogslæk og endar við Dalveg við nýjasta fróðleiksskiltið og þar verður boðið upp á grillpylsur.

Mosfellsbær og Umhverfisstofnun bjóða til fundar um heilsusamlegan og grænan lífsstíl í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Reykjanes

Í Grindavík mun Heilsuleikskólinn Krókur fá afhentan Grænfána. Farið verður í skrúðgöngu í Kyrrðardal sem er stutt frá leikskólanum og þar verður grænfánahátíð haldin.

Suðurland

Nemendum á miðstigi grunnskóla býðst að fá landvörð í heimsókn í eina kennslustund. Um er að ræða skólana sem eru á svæðinu frá Gígjukvísl á Skeiðarársandi í austri að Þjórsá í vestri.

Á Höfn í Hornafirði verður opið í Einarslundi, þar sem fuglar verða merktir. Einnig verður boðið til tveggja fræðsluerinda um Holuhraun í Gömlubúð á Höfn í Hornafirði, þar sem fjallað verður um áhrif landslags og veðurs á gasútbreiðslu úr Holuhrauni sem og erindi undir yfirskriftinni „Eldgos í þjóðgarði – landvarsla á umbrotatímum og í nýju landi“.

Austurland

Á Skriðuklaustri verður boðið upp á ratleik í Snæfellsstofu.

Norðurland eystra

Vatnajökulsþjóðgarður býður upp á haustlitaferð um Hafragilsundirlendi. Einnig býður Vatnajökulsþjóðgarður upp á göngu um nýjasta svæði landsins; nýja Holuhraun.

Akureyrarbær býður til göngu- og fræðsluferðar um óshólma Eyjafjarðarár. Auk þess býður Akureyrarbær á morgun til göngu- og fræðsluferðar um fólkvanginn í Krossanesborgum.

Norðurland vestra

Á Skagaströnd verður efnt til gönguferðar um náttúruperluna Spákonufellshöfða.

Akraneskaupstaður og Landmælingar Íslands bjóða til fræðslu- og örnefnagöngu. Einnig verður þar boðið upp á göngu um Garðalund undir leiðsögn.

Nánari upplýsingar:

www.umhverfisraduneyti.is

„Blandaðu flandrið“

Evrópsk samgönguvika hefst í dag með hvatningarorðunum „Blandaðu flandrið“ en með þeim er fólk hvatt til að velja, blanda og njóta þeirra samgöngumáta sem bjóðast. Í dag mun göngugötusvæði miðborgarinnar ná alla leið frá gatnamótum Vatnsstígs að Aðalstræti. Frá kl. 11-14 munu ungir listamenn og leikskólabörn vinna saman að því að gera stórt krítarlistaverk í Bankastrætinu.

Dagskrá samgönguviku er að finna á reykjavik.is/samgonguvika-2015