Lofsöngur Erlendir fjölmiðlar og gagnrýnendur hafa lofsungið The King's Singers, m.a. gagnrýnendur dagblaðanna New York Times og Washington Post.
Lofsöngur Erlendir fjölmiðlar og gagnrýnendur hafa lofsungið The King's Singers, m.a. gagnrýnendur dagblaðanna New York Times og Washington Post.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Breski sönghópurinn The King's Singers heldur tónleika í Eldborgarsal Hörpu í kvöld kl. 20 og í Skálholtskirkju á morgun kl. 18.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Breski sönghópurinn The King's Singers heldur tónleika í Eldborgarsal Hörpu í kvöld kl. 20 og í Skálholtskirkju á morgun kl. 18. Hópurinn mun einnig halda námskeið, masterklassa, fyrir sönghópa og kóra í Hörpu frá kl. 11 til 13.30 í dag og gefst áhugasömum kostur á því að kaupa sér miða og fylgjast með.

Sönghópurinn var stofnaður árið 1968 og hafa ungir söngvarar tekið við af þeim eldri í áranna rás, eins og gefur að skilja. Hópinn skipa nú þeir David Hurley 1. kontra-tenór, Timothy Wayne-Wright kontra-tenór, Julian Gregory tenór, Christopher Bruerton og Christopher Gabbitas baritónar og Jonathan Howard bassi. Þeir félagar halda vel yfir hundrað tónleika á ári víða um heim og eru iðnir við að syngja inn á plötur. Frá stofnun hafa yfir 150 diskar verið gefnir út með The King's Singers og hefur hópurinn fengið Grammy-tónlistarverðlaunin í tvígang, árið 2009 fyrir plötuna Simple Gifts og 2012 fyrir Light and Gold .

Í Skálholtskirkju mun hópurinn sníða efnisskrá sína eftir hljómburði kirkjunnar, velja viðfangsefni að hluta til á staðnum úr þeim fjölbreyttu stíltegundum sem söngvararnir ráða við og er sá hluti kallaður Tónlistarpóstkort frá öllum heimshornum en á fyrri hluta efnisskrárinnar eru tónverk sem byggjast á bæninni Faðir vor, m.a. eftir tónskáldin John Tavener og Igor Stravinsky. Í Eldborg verða sungin lög af ýmsu tagi, allt frá þjóðlögum og trúarlegum lögum yfir í „And so it goes“ eftir Billy Joel og „Some folks' lives roll easy“ eftir Paul Simon.

Afkastamiklir

Pétur Oddbergur Heimisson, liðsmaður sönghópsins Olgu, er einn af skipuleggjendum tónleikanna og segist hann hafa fengið þá flugu í höfuðið að skemmtilegt væri að fá The King's Singers til landsins. Hann hafi haft samband við umboðsmann hópsins sem hafi tekið vel í hugmyndina og í kjölfarið hafi tónleikar verið bókaðir í Hörpu og Skálholtskirkju.

Pétur segir The King's Singers afar vinsælan og afkastamikinn sönghóp. „Ég held þeir hafi lokið við síðustu tónleikatörn í ágúst og tekið sér svo nokkurra vikna sumarfrí. Um síðustu helgi hófu þeir nýtt tónleikaferðalag,“ segir Pétur um hópinn. Efnisskrár hans séu afar fjölbreyttar og á tónleikunum í Eldborg muni hann m.a. syngja lag eftir Tryggva Baldvinsson, „Kvöldvers“. „Þetta er lag sem Tryggvi útsetti sérstaklega fyrir tónleikana,“ segir Pétur. Hópurinn mun syngja lagið á íslensku og segir Pétur að spennandi verði að hlusta á það. „Þeir eru mjög góðir með tungumál. Bassinn í hópnum hefur tekið að sér að gera kynningar á tungumáli þess lands sem þeir syngja í hverju sinni. Ég sá þá í Póllandi á síðasta ári og þá var hann með kynningu á pólsku. Svo sá ég hann í Amsterdam á þessu ári og þá var hann með kynningu á hollensku. Það er svolítið skemmtilegt og færir þá nær áhorfendum,“ segir Pétur.

Hvað efnisskrár hópsins varðar segir Pétur að söngvararnir hafi lagt áherslu á það frá byrjun að hafa þær eins fjölbreyttar og mögulegt væri. „Ef maður skoðar það sem þeir hafa gefið út þá er það ótrúlega fjölbreytt,“ segir hann.

Ekki hægt að sækja um

– Nú þarf að endurnýja í hópnum reglulega. Það hlýtur að vera erfitt fyrir söngvara að komast í hann?

„Já. Þú getur ekki sótt um, getur ekki sent þeim tölvupóst. Þeir verða að bjóða þér þannig að þeir vita af einhverjum söngvara sem gæti mögulega passað í stöðuna og bjóða kannski nokkrum að syngja fyrir sig. Það er einn nýr söngvari í hópnum, tenórinn, hann kom inn í september í fyrra,“ segir Pétur.

Sem fyrr segir heldur hópurinn masterklassa fyrir sönghópa og kóra í dag og voru sex hópar valdir til þátttöku sl. vetur. Pétur segir námskeiðið hefjast á kynningu og að henni lokinni verði hópunum skipt niður í tvo sali, Norðurljós og Kaldalón, þar sem kennslan fari fram. Námskeiðinu lýkur með stuttum tónleikum þar sem þátttakendur koma fram.