Fjárlagafrumvörp síðustu tveggja ára vanmátu tekjur ríkissjóðs af eignarhlutum hans í viðskiptabönkunum þremur um samtals 30,8 milljarða króna.

Fjárlagafrumvörp síðustu tveggja ára vanmátu tekjur ríkissjóðs af eignarhlutum hans í viðskiptabönkunum þremur um samtals 30,8 milljarða króna. Þannig gerði frumvarpið 2014 ráð fyrir 8,1 milljarði í arð en raunin varð sú að bankarnir greiddu ríkinu tæpan 21 milljarð. Frumvarp vegna yfirstandandi rekstrarárs gerði ráð fyrir rúmlega 7,7 milljarða tekjum af sömu eignum en tekjurnar reyndust 25,6 milljarðar króna.

Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir því að arður ríkisins af bönkunum þremur muni nema 8 milljörðum króna. Á sama tíma sýna hálfsársuppgjör bankanna að samanlagður hagnaður þeirra er tæpir 43 milljarðar króna á fyrri hluta ársins. Séu arðgreiðsluhlutfall síðasta árs og eignarhlutur ríkisins sett í samhengi við afkomuna ætti arðgreiðsla til ríkisins fyrir fyrri hluta ársins að geta numið allt að 11 milljörðum króna en það er 3 milljörðum meira en áætlun fyrir allt næsta ár gerir ráð fyrir. Verði hagnaður bankanna í sama hlutfalli það sem af er ári gætu arðgreiðslur bankanna í ríkissjóð nærri tvöfaldað þann rekstrarafgang sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. 16