Öflugur Pau Gasol var sterkur í liði Spánverja og skoraði 27 stig.
Öflugur Pau Gasol var sterkur í liði Spánverja og skoraði 27 stig. — AFP
Spánverjar og Frakkar tryggðu sér í gær sæti í undanúrslitum á Evrópumótinu í körfuknattleik. Spánverjar höfðu betur gegn Grikkjum í spennuleik og Frakkar báru sigurorð af Lettum.

Spánverjar og Frakkar tryggðu sér í gær sæti í undanúrslitum á Evrópumótinu í körfuknattleik. Spánverjar höfðu betur gegn Grikkjum í spennuleik og Frakkar báru sigurorð af Lettum.

Pau Gasol innsiglaði sigur Spánverja gegn Grikkjum, 73:71, í æsispennandi leik. Gasol skoraði úr öðru vítaskoti sínu rúmri einni sekúndu fyrir leikslok og örvæntingarfull tilraun Grikkja til að tryggja sér sigur með þriggja stiga körfu gekk ekki. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var jöfn, 14:14, en Spánverjar tóku góðan sprett í öðrum leikhlutanum sem þeir unnu, 25:18. Grikkir voru ekki af baki dottnir. Þeir unnu þriðja leikhlutann, 25:16, og spennan var mikil í síðasta leikhlutanum.

Gasol átti stórleik fyrir Spánverja en hann skoraði 27 stig og tók 9 fráköst og Nikola Mirotic skoraði 18. Hjá Grikkjum var Nick Calathes stigahæstur með 14 stig.

Frakkar lögðu Letta með 14 stiga mun, 84:70, eftir að hafa verið undir eftir fyrsta leikhlutann, 25:21. Frakkarnir náðu upp sterkum varnarleik eftir fyrsta leikhlutann og áttu Lettar fá svör við honum. Stjórstjarnan Tony Parker fór fyrir Frökkunum og skoraði 18 stig og átti 6 stoðsendingar en hjá Lettum var Kristaps Janicenoks stigahæstur með 16 stig. gummih@mbl.is