Baldvin Ólafsson fæddist í Sigtúnum á Kljáströnd í Höfðahverfi 26. desember 1919. Hann lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 6. febrúar 2015.

Foreldrar Baldvins voru Ólafur Gunnarsson frá Höfða í Höfðahverfi, f. 27.7. 1878, d. 15.1. 1964, og Anna María Vigfúsdóttir frá Hellu á Árskógsströnd, f. 28.11. 1888, d. 10.7. 1973. Systkini Baldvins eru Anna Gunnur, f. 7.5. 1911, d. 30.11. 1945; Dóra, f. 6.7. 1912, Guðríður, f. 25.4. 1916, d. 25.10. 2005; Gunnar f. 1.10. 1917, d. 6.9. 1991; Vigfús, f. 7.11. 1922, d. 19.10. 2012; Árni, f. 1.10. 1925, d. 26.5.2003; Þóra Soffía, f. 18.4. 1931.

Baldvin kvæntist Maríu Jóhönnu Ásgrímsdóttur frá Hálsi í Öxnadal 9.9. 1950, f. 14.6. 1925, d. 9.6. 2009. Börn Baldvins og Maríu eru: 1) Ólafur Haukur Baldvinsson, f. 2.12. 1950, maki Sigrún Jónsdóttir, f. 27.10. 1953. Dætur þeirra eru: Sólrún María, f. 30.1. 1979, Hafdís, f. 6.9. 1983, og Dagný, f. 25.6. 1986. 2) Elsa Baldvinsdóttir, f. 25.6. 1954, maki Jón Arnar Pálmason, f. 6.10. 1950. Sonur Elsu og Hermanns Haraldssonar er Baldvin Már, f. 29.1. 1976. Synir Elsu og Jóns Arnars eru Rúnar Þór, f. 10.3. 1980, og Jón Atli, f. 29.7. 1991. 3) Hilmar Baldvinsson, f. 12.2. 1958, maki Emilía Jarþrúður Einarsdóttir, f. 26.3. 1960. Dóttir Hilmars og Steinunnar Benediktsdóttur er Hallfríður, f. 23.8. 1978. Börn Hilmars og Emilíu Jarþrúðar eru Halla Björk, f. 6.12. 1980 og Magnús Birkir, f. 18.8. 1989. Barnabarnabörn Baldvins og Maríu eru átta.

Baldvin ólst upp á Kljáströnd, sótti barnaskóla á Grenivík og var tvo vetur á Laugarvatni. Eftir þá dvöl stundaði hann sjóinn, var starfsmaður á Hótel Gullfossi og á Hótel KEA. Baldvin varði stærstum hluta starfsævi sinnar sem útibússtjóri í Hoepfner að Hafnarstræti 20 á Akureyri, en það var um áramótin 1986-1987 sem hann lét af störfum eftir rúmlega fjörtíu ára starf hjá KEA, þá 67 ára að aldri. Næstu árin vann hann af og til við fiskvinnslu og í sláturtíð hjá sláturhúsi KEA við sögun lambskrokka.

Útför hans fór fram frá Akureyrarkirkju 20. febrúar 2015.

Fyrr á árinu kvaddi móðurbróðir minn, Baldvin Ólafsson, þetta líf og hélt á nýjar og óþekktar slóðir. Þar með saxaðist enn á systkinahópinn frá Kljáströnd í Grýtubakkahreppi.

Börnin á Kjáströnd kynntust náttúrunni vel og lærðu að bera virðingu fyrir henni. Veiðiskapur var þeim – og þá ekki síst Balla – í blóð borinn. Það var ótrúlega gaman fyrir mig og mína kynslóð að fá að fara með Balla á handfæri, leggja net og draga fyrir. Allt þetta og miklu fleira kunni hann betur en flestir aðrir – og kenndi þeim sem vildu læra. Léttur á fæti og fór síðast í rjúpur 86 ára gamall og geri aðrir betur.

Baldvin, sem þekktist vart undir öðru nafni en „Balli í Höfner“, gekk ungur í raðir starfsmanna KEA og í áratugi var hann verslunarstjóri Höfners, sem var útibú KEA við Hafnarstræti. Höfner var um og eftir miðja síðustu aldar nafli Innbæjarins og þar var veitt slík úrvals þjónusta að annað var fáheyrt. Afgreiðslufólkið vissi allt um matarþarfir viðskiptavina sinna og gat nánast sett í pokana fyrir hvern og einn. Hvergi fékkst betra saltkjöt, enda saltaði Balli það sjálfur.

Þeir sem þekktu Baldvin muna líklega best eftir brosinu og góða skapinu. Vandfundinn er sá einstaklingur sem hafði jafn góða nærveru og Balli. Aldrei talaði hann illa um nokkurn mann. Hjálpsemi var honum í blóð borin.

Æskuheimili mitt var í næsta húsi og árum saman – og þá einkum eftir að faðir minn féll frá – kom Balli daglega í heimsókn til móður minnar. Þessar samverustundir voru þeim báðum mikils virði og gerðu móður minni kleift að vera heima hjá sér mun lengur en ella – enda sá Balli um öll innkaup fyrir hana og fór með hana í bæjarferðir ef því var að skipta. Léttur á fæti fór hann með taupoka í Hagkaup, sem er í næsta húsi, og tíndi í hann helstu nauðsynjar sem kona á tíræðisaldri þurfti á að halda. Þau systkinin lásu dagblöðin spjaldanna á milli og ræddu saman um efni þeirra.

Allt er breytingum undirorpið. Liðin er sú tíð er verslunarstjórinn hjólaði að heiman í vinnuna og María gekk ákveðnum skrefum í áttina að Útgerðarfélagi Akureyringa. Horfinn er sá tími er Balli og félagar hans spiluðu bridge eins og atvinnumenn í Reynivöllunum eða að Balli spilaði á mótum fyrir KEA.

Nýtt fólk er komið í húsin á Eyrinni og ókunnug börn axla skólatöskurnar sínar og halda í Oddeyrarskólann. Það stendur enginn Balli lengur hjá bílskúrnum við plastkör full af súrum hval eða greiðir og hreinsar silunganet. Gamli bíllinn, sem sjaldan fór úr öðrum gír, er sömuleiðis farinn.

Ef silungsveiðar eru stundaðar í nýjum heimkynnum þá er klárt að þar er Balla að finna. Ekki mun honum þykja það verra ef himneskt sherry er boðið fram að kvöldi dags – eftir að að heimamenn hafa snætt soðinn fisk með nýuppteknum kartöflum og dágóðum skammti af smjöri úr Samlaginu.

Áskell Þórisson.