Jóhann Gunnar Einarsson
Jóhann Gunnar Einarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nokkrir sterkir leikmenn verða fjarri góðu gamni fram eftir keppnistímabilinu í Olís-deild karla. Meðal þeirra eru Jóhann Gunnar Einarsson, Aftureldingu, Valsmaðurinn Elvar Friðriksson og línumaðurinn sterki hjá ÍR, Jón Heiðar Gunnarsson.

Nokkrir sterkir leikmenn verða fjarri góðu gamni fram eftir keppnistímabilinu í Olís-deild karla. Meðal þeirra eru Jóhann Gunnar Einarsson, Aftureldingu, Valsmaðurinn Elvar Friðriksson og línumaðurinn sterki hjá ÍR, Jón Heiðar Gunnarsson.

Jóhann Gunnar gekkst undir aðgerð í sumar vegna axlarmeiðsla sem hann hlaut í úrslitakeppni Íslandsmótsins í vor. Öxlin var verr farin en talið var og verður Jóhann Gunnar að gefa sér góðan tíma til að jafna sig. Mosfellingar reikna ekki með honum í keppni fyrr en Olís-deildin hefst á nýjan leik eftir EM-hlé í byrjun febrúar.

Elvar átti í nárameiðslum hluta af síðasta keppnistímabili. Að sögn Óskars Bjarna Óskarssonar, þjálfara Vals, fer Elvar í aðgerð í þessari viku. Ekki er búist við að hann mæti til leiks fyrr en í fyrsta lagi eftir tvo mánuði, þ.e. þegar farið verður að halla á nóvember.

Jón Heiðar meiddist á hægri öxl nánast á síðustu andartökum í lokaleiknum við Akureyri í 8-liða úrslitum í apríl. Hann lét sig þó hafa það að pína sig í gegnum fimm leiki við Aftureldingu í undanúrslitum. Þrátt fyrir hvíld í sumar hefur Jón Heiðar alls ekki náð fyrri styrk. Komið hefur í ljós að rifa er í liðbandi í öxlinni. Jón Heiðar sagði við Morgunblaðið að hann væri í stífri sjúkraþjálfun og vonaðist til að með réttri meðferð gæti hann komist hjá aðgerð. Hvenær Jón Heiðar verður klár í slaginn með ÍR-liðinu verður tíminn að leiða í ljós.

Þá verður hinn efnilegi leikstjórnandi Aftureldingar, Elvar Ásgeirsson, frá keppni alla leiktíðina eftir að krossband í hægra hné trosnaði. Hann gengst undir krossbandaaðgerð hjá Brynjólfi Jónssyni í þessari viku. Eftir það tekur við sex til sjö mánaða endurhæfing.