Helgi Hrafn Gunnarsson
Helgi Hrafn Gunnarsson
Eftir Helga Hrafn Gunnarsson: "Ef mönnum er alvara með að breyta stjórnarskrá án þess að rjúfa þing, þá hljóta þeir að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum."

Hv. greinarhöfundur Bergþór Ólason framkvæmdastjóri skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið sem hann titlaði „Birgitta slekkur á stjórnarskrármálinu“. Í þeim pistli fullyrðir hann að Birgitta Jónsdóttir sjálf trúi því ekki að þjóðin vilji nýja stjórnarskrá. Byggir hann þá ályktun á þeim misskilningi, að hún telji 40% kjörbærra manna ekki mæta í þjóðaratkvæðagreiðslu nema þær séu haldnar samhliða forsetakosningum.

Engar sérstakar áhyggjur hefði maður af einföldum 40% þátttökuþröskuldi í svo mikilvægu máli, enda ætti ekki að vera vandkvæðum háð að fá 40% kjósenda á kjörstað eins og Bergþór bendir réttilega á. Það er hinsvegar ekki vandinn sem Píratar óttast og Birgitta Jónsdóttir fjallaði um.

Þröskuldurinn sem Birgitta vakti athygli á er tilgreindur í breytingarákvæði til bráðabirgða í stjórnarskrá, en það var staðfest af Alþingi í upphafi líðandi kjörtímabils. Ákvæðið heimilar breytingar á stjórnarskrá án þess að rjúfa þing ef 2/3 Alþingis samþykkir breytinguna og 40% kjörbærra manna samþykkja breytinguna einnig í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En hér liggur misskilningur Bergþórs og fleiri. Þetta 40% hlutfall tilgreinir ekki hlutfall kjörbærra manna sem þarf að mæta á kjörstað til þess að niðurstaðan gildi, heldur hlutfall allra kjörbærra manna í landinu sem þarf að samþykkja breytinguna, óháð því hversu margir mæta á kjörstað.

Sem dæmi, þá ef 40% kjörbærra manna mætti á kjörstað, þyrfti hver einn og einasti þeirra að samþykkja breytinguna, 100% þeirra, til þess að niðurstaðan teldist gild. Jafnvel ef 99% þeirra sem mættu á kjörstað greiddu atkvæði með henni, yrði hún felld ef kosningaþátttakan væri einungis 40%. Ef 50% kjörbærra manna mætti, sem þó þykir almennt ágætt í þjóðaratkvæðagreiðslum, þá myndi 79% meirihluti þeirra ekki duga til að samþykkja breytinguna. Ef 55% kjörbærra manna mætti og 72% þeirra samþykktu breytinguna, þá tæki hún ekki heldur gildi. Einfaldur meirihluti ræður ekki fyrr en kosningaþátttakan er komin í 80%.

Aftur að forsetanum. Í umræðunni um þetta bráðabirgðaákvæði á sínum tíma var það beinlínis notað sem afsökun fyrir þessum samþykkisþröskuldi, að ef þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram meðfram forsetakosningum væri hægt að minnka verulega líkurnar á því að meirihluti kjósenda yrði hunsaður.

Þess vegna eru það veruleg vonbrigði að forsetinn telji það ólýðræðislegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar á sama tíma og forsetakosningar, vegna þess að það er nákvæmlega þveröfugt. Hvort sem kosningaþátttakan færi úr 70% niður í 60% eða úr 60% niður í 50%, þá myndi hún óhjákvæmilega lækka og þar með hækka hlutfall kjósenda, sem þó mæta á kjörstað, sem þarf til að samþykkja breytingarnar. Framganga forsetans var því í grunninn aðför að lýðræðislegri niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá en ekki öfugt eins og hann hélt fram. Eina leiðin til þess að gera þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrárbreytingarnar lýðræðislegar með bráðabirgðaákvæðinu í stjórnarskrá, er með gríðarlega hárri kosningaþátttöku; svo hárri að alls kostar óvíst er að slíkt takist, jafnvel samhliða forsetakosningum, ef marka má þróunina í kosningaþátttöku síðustu ár og áratugi.

Það versta við 40% samþykkisþröskuldinn er þó sennilega annað: Nefnilega að hann býr til andlýðræðislegan hvata handa þeim sem eru á móti stjórnarskrárbreytingum.

Venjulega, svo sem í Alþingiskosningum, hafa pólitísk öfl sameiginlega hagsmuni af því að hvetja sem flesta til að mæta á kjörstað, en með 40% samþykkisþröskuldi snúast hagsmunir andstæðinga breytinga á þann veg að þeim hentar best að hvetja aðra til heimasetu. Stuðningsmenn breytinganna þurfa helst að hjálpa fólki að komast á kjörstað til að vinna sínum málstað brautargengi, meðan andstæðingar breytinga þjóna í rauninni sínum málstað best með því að halda sem flestum uppteknum við hvað svosem þeim finnst skemmtilegra en að mæta á kjörstað. Stuðningsmaður breytinga þarf því að hvetja til þátttöku á meðan andstæðingi breytinga nægir að hvetja til þátttökuleysis. Tala nú ekki um ef það er leiðinlegt veður.

Hvað sem því líður, þá er mikilvægt að fólki sé ljóst hvaða takmarkanir voru settar í bráðabirgðaákvæði til breytinga á stjórnarskrá. 40% samþykkisþröskuldur kveður ekki á um að 40% kjósenda þurfi að mæta á kjörstað, heldur um að 40% allra kjörbærra manna í landinu skuli greiða atkvæði á tiltekinn hátt til að niðurstaðan gildi. Það er grundvallarmunur á þessu tvennu.

Ef mönnum er alvara með að breyta stjórnarskrá án þess að rjúfa þing, þá hljóta þeir að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Orðræða forseta lýðveldisins við þingsetninguna í ár hlýtur að vekja ugg hjá öllum sem aðhyllast þær breytingar.

Höfundur er þingmaður Pírata.